laugardagur, desember 31, 2005

1.janúar 2006 - Áramót og annáll ársins

Þessi pistill gildir fyrir 1. janúar sökum mikilla anna við að tæma flösku af 21 árs gömlum Glenna.

Árið hófst með því að ég fór að pakka. Ég hafði búið í þrengslum í alltof lítilli íbúð efst á Breiðholtsjökli um nokkurra ára skeið og nú var kominn tími til að komast í rúmbetra húsnæði. Flutningsdagurinn var svo ákveðinn 29. janúar svo mér ynnist tími til að skila gömlu íbúðinni um mánaðarmót.

Laugardagurinn 29. janúar rann upp hlýr og fagur, en svo heita góðir dagar í ævintýrunum. Ekki var það svo gott hjá mér því þann daginn var hellirigning og rok. Ekki beint heppilegur dagur til flutninga. Það var samt lagt í hann og þrátt fyrir nokkuð heilsuleysi og flensu tókst mér að flytja með góðri hjálp og skila af mér í samræmi við áður gefin loforð. Kisan Glóey í næstu íbúð fékk ekki að flytja með mér, en síðar frétti ég að hún hefði grátið mörgum tárum við svaladyrnar eftir að ég var farin.

Að þessu frátöldu og tveimur veikindadögum eftir flutningana, gekk árið eins og eftir reglustrikunni. Ég mætti á vaktina og fór heim aftur eftir vaktina og gerði yfirleitt fátt annað en að sofa og vinna, fékk mér stöku öl og þau skipti sem ég fór út að skemmta mér voru teljandi á fingrum annarrar handar. Ég fór einu sinni í leikhús en aldrei í bíó. Þá heiðraði ég Næstabar með nærveru minni að minnsta kosti fjórum sinnum á árinu.

Ég ferðaðist lítið. Þó fór ég norður til Akureyrar og heimsótti gamlan skipsfélaga sem var kominn með krabbamein. Tveimur vikum síðar fór ég aftur norður, í það skiptið til að kveðja þennan ágæta fyrrum skipsfélaga minn. Auk þessa fór ég einu sinni á vegum vinnunar austur á firði að skoða framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun og nýja álverið á Reyðarfirði. Eins og gefur að skilja, miðað við öll þessi ferðalög, þá ók ég ekki marga kílómetra á árinu. Ekki var það til að bæta úr að ég gekk oftast til og frá vinnu.

Ég fór eina utanlandsferð, en það var til Vínar í gegnum Stansted og Bratislava á fyrsta þing evrópsku transgendersamtakanna. Á þinginu sem stóð yfir í þrjá daga lagði ég fátt af viti til málanna en tókst samt að kjafta mig inn í miðstjórn samtakanna. Fyrir bragðið er ég strax farin að hlakka til næsta miðstjórnarfundar sem er fyrirhugaður í Sviss í lok mars á nýju ári.

Litlar breytingar voru á tölu nánustu ættingja á árinu, engin ný barnabörn fædd, ekkert dauðsfall í fjölskyldunni og minnir mig að einungis eitt barn hafi bæst við í fjölskyldunni. Öllu róttækari voru breytingarnar í sjálfri ættinni. Með því að Íslendingabók viðurkenndi kröfur mínar um nýjan langafa, tókst mér að reka Björn Inga Hrafnsson úr ætt við mig í refsingarskyni fyrir að hafa velt Alfreð Þorsteinssyni úr sessi sem leiðtoga Framsóknarflokksins í Reykjavík. Um leið og Björn Ingi fauk út, fóru einnig Ómar Ragnarsson, Björgvin Halldórsson og Steinn Ármann Magnússon sem og nokkrir skáksnillingar, en það mátti líka kosta talsvert að losna við Björn Inga Hrafnsson. Á móti kom að í refsingarskyni við Rás2 sem hafði hunsað vilja hlustenda sinna sem vildu endurkjósa Svanhildi Hólm sem kynþokkafyllstu konu ársins 2005, fyrir þá sök eina að hún hafði hætt hjá Ríkisútvarpinu og tóku inn einhverja lítt þekkta þulu í staðinn, þá tók ég hana inn í föðurættina hjá mér þótt ættartengslin séu svo lítið að vart verðum við frænkur úr þessu.

Ekki má gleyma fjölgun á mínu eigin heimili. Tvær kisur fæddust 11 apríl og hafa búið hjá mér síðan í lok maí og dafna vel. Ekki fór allt þó eins og talið var í fyrstu, en önnur kisan var vandlega kyngreind af tveimur færustu sérfræðingum landsins á þessu sviði og kölluð Kolbeinn. Í júlí fór ég með Tárhildi og Kolbein á Dýraspítalann í sprautu og staðfestingu á kyngreiningu og heim fór ég með Tárhildi og Hrafnhildi.

Í lok ársins fór ég í fýlu út í 365 miðla sem höfðu tekið yfir gamla bloggið mitt, hent allri historík út nema ég borgaði meira og síðan hlaðið inn auglýsingum. Eftir það er ég með þetta nýja blogg mitt sem mun vonandi endast betur en hið gamla. Mér tókst að halda gamla blogginu mínu úti í 512 daga áður en ég gafst upp á því. Á þessum 512 dögum skrifaði ég um 540 pistla og fékk 64355 heimsóknir á síðuna sem eru um 125 heimsóknir á dag að jafnaði. Þessa átta daga sem ég hefi haldið talningu á nýju síðunni minni eru heimsóknirnar orðnar 1176 eða 147 á dag frá netþjónum í ellefu löndum og er þá miðað við klukkan níu á gamlárskvöld.

Ekki má birta þokkalegan áramótapistil án þess að íþrótta sé getið. Þar ber fremst hinn háaldraða heimsmethafa Michael Schumacher sem lét heimsmeistaratitil sinn af hendi á árinu, enda taldi hann eðlilegt að einhverjir yngri menn fengju titil einu sinni svo hann sæti ekki einn að titlinum um aldur og ævi. Heimsmethafinn er reyndar orðinn svo aldraður að hann er einungis fjórum dögum yngri en ökuskírteinið mitt.

Af helstu tíðindum úr knattspyrnunni er þess að geta að hetjurnar hugumstóru í Halifaxhreppi voru komnar hættulega nærri því að hafna í langneðstu deild á síðasta vori, en með því að beita fyrir sig ólympíuhugsuninni í nokkrum síðustu leikjum sínum, tókst þeim að koma í veg fyrir slíkan skaða á knattspyrnuíþróttinni. Að undanförnu hefur fátt verið tíðinda af hetjunum. Þeim tókst naumlega að komast úr fyrstu umferð bikarkeppninnar fyrir mánuði er Lárus Bryti markmaður kastaði sér snarlega í hitt hornið er skotið var á markið í vítaspyrnukeppni. Þá verða hetjurnar nú að gæta sín í kvenfélagsdeildinni, því þær hafa misst boltann nokkuð oft í mark andstæðinganna, en andstæðingarnir ekki jafnduglegir að skora hjá þeim. Því eru þær komnar aftur í bullandi hættu á að lenda aftur í langneðstu deild í vor og verma nú 4-5. sæti kvenfélagsdeildarinnar eftir súran sigur á Skarnaborg í tilefni af afmæli mínu í gær.

Fyrir þremur árum gaf ég sjálfri mér það nýársheit að ná af mér 12 kílóum á árinu. Það gekk vel í upphafi og stefndi talan hraðbyri niður á við í nokkra mánuði. Svo gerðist ég kærulaus og stóð talan í stað nokkuð lengi, en um áramót þau sem ég hafði miðað við var árangurinn orðinn um 60% af ætluðu takmarki. Í dag hefi ég náð að bæta á mig öllum þeim kílóum sem ég hafði áður misst og að auki bætt á mig þremur til viðbótar. Ég ætla því að endurnýja heit mitt og ná af mér þessum fimmtán kílóum á árinu 2006.

Eins og sést af þessari upptalningu er ekkert að frétta af mér. Með þessum orðum óska ég öllum árs og friðar og sendi þakkir til allra sem hafa nennt að lesa bloggið mitt.

31. desember 2005 - Gamlársdagur

Ég er að velta fyrir mér að skrá inn atburðaskrá liðins árs í kvöld, gamlárskvöld og setja inn á netið á miðnætti undir sálminum fagra, “Nú árið er liðið” en hefi ekki þrek til að gera slíkt nú, enda langur vinnudagur að baki og langur vinnudagur framundan á gamlársdag.

Mig langar þó til að þakka fjölmargar kveðjur sem ég fékk í tilefni afmælisins í gegnum símtöl, kveðjur á netinu og með hjálp emils.

föstudagur, desember 30, 2005

30. desember 2005 - Eldrick Woods

Eins og flestir lesendur mínir vita, þá skara steingeitur framúr á flestum sviðum, stjórnspeki, rithæfileikum, íþróttum og trúmálum. Margir þekktir einstaklingar eru sagðir vera fæddir í steingeitarmerkinu. Mao tse-tung, Þórhallur Laddi Sigurðsson, Silvía Sommerlath, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Michael Schumacher, Davíð Oddsson, Gunnar Thoroddsen og Jesús Kr. Jósefsson.

Einn dag ber þó sérstaklega af í þessu stjörnumerki, enda óvenjumargt hæfileikafólk fætt þennan dag, en þeirra á meðal eru eftirfarandi: Titus keisari hinn rómverski, rithöfundarnir Rudyard Kipling, Sara Lidman, Vladimir Bukowsky og Bjarni Thorarensen, söngkonurnar Patti Smith og Tracey Ullman, athafnamaðurinn Frosti Bergsson, vísindamennirnir Helge Ingstad og Adda Bára Sigfúsdóttir og allir lesendur mínir þekkja hæfileika mína á ýmsum sviðum, huhmm. Þess má og geta að Sovétríkin sálugu voru formlega stofnuð þennan dag árið 1922 ef marka má Wikipedia. Þá má ekki gleyma tveimur hæfileikamönnum í íþróttum. Annar er knattspyrnukappinn Gordon Banks og svo sá sem hér skal heiðraður

Í dag, 30. desember 2005, heldur bandaríski íþróttamaðurinn Eldrick, sem getur hefur sér gott orð fyrir að sveifla kylfu, upp á þrítugsafmæli sitt, en hann fæddist í Cypress í Kaliforníu í Bandaríkjunum á 24 ára afmælisdegi mínum. Öfugt við mig sem get aldrei ákveðið mig, með hvorri hendinni ég á að slá og með hvorri hendinni á að stýra kylfunni, þá hefur Eldrick þessi náð nokkurri leikni á þessu sviði og virðist ekki vera í vafa eins og ég og fleiri sem teljum það aðalsmerki að rita með vinstri hendi. Vegna hæfileika sinna hefur honum tekist að öngla saman nokkrum aurum með sigrum á þessu sviði, en einhversstaðar las ég, að með barningi sínum á golfvellinum, hafi honum tekist að skrapa saman rúmlega hálfu hundraði milljóna í bandarískum dölum talið. Þá hefur hann eignast aragrúa af allskyns dollum af ýmsum stærðum og gerðum sem eru þó lítt notaðar, heldur einungis hafðar til skrauts á heimili hans í Flórida í Bandaríkjunum.

Eldrick þessi Woods sem stundum er kallaður Tiger Woods, er kvæntur sænsku fyrirsætunni Elínu Nordegren sem sjálf er steingeit, verður 26 ára sunnudaginn 1. janúar 2006.

Mér er það heiður að óska honum til hamingju með daginn sem og öðrum afmælisbörnum dagsins, þó sérstaklega undirritaðri, en einnig Albert frænda hjá Hitaveitu Suðurnesja og Rannveigu eiginkonu Alberts frænda.

fimmtudagur, desember 29, 2005

29. desember 2005 - 2. kafli - 134 fíklar

Mér brá í brún í morgun þegar ég sótti blöðin niður í póstkassa og sá forsíðuna á Fréttablaðinu. Þar var stór fyrirsögn á forsíðu þess efnis að 134 aðilar sem hefðu verið í meðferð á Vogi hefðu látist á fyrstu átta mánuðum ársins. Þetta er hræðilegt hugsaði ég með mér og í huganum sá ég fyrir mér lík sprautufíkla eins og hráviði í sérhverju skúmaskoti, undir tré eða inni á klósetti á Hlemmi, minnug fólksins sem fannst látið á Frakkastíg um jólin.

En samt, mér fannst talan grunsamlega há. Ég hafði átt erindi niður á Hlemmtorg á Þorláksmessu og ekkert sá ég líkið hvorki innandyra né utan. Kannski leitaði ég þeirra ekki eða að ég var þarna í öðrum erindagjörðum en að leita að líki og því misst af einhverju. Miðað við þennan fjölda væru nú ekki margir fíklar enn á lífi svo nú hlyti að draga úr þessari ofneyslu fíkniefna sem fjölmiðlar eru sínkt og heilagt að segja frá.

Ég fór að lesa fréttina sem var myndskreytt á forsíðu með þeim Þórarni Tyrfingssyni lækni á Vogi og Matthíasi Halldórssyni aðstoðarlandlækni, en með mynd af sprautu inni í blaðinu. Þá rann upp fyrir mér ljós. Fréttin var fölsk. Þetta var einfaldlega samantekt yfir það fólk sem hafði einhverntímann verið í meðferð á Vogi og síðar látist af hinum ýmsu sjúkdómum, hjartasjúkdómum, krabbameini eða einhverju öðru sem leitt getur fólk til dauða auk þeirra sem létust af völdum alkóhóls eða fíkniefna. Sem betur fer öðlast fólk ekki eilíft líf af því einu að hafa lent inni á Vogi, því þá yrði samfélagið brátt yfirfullt af háöldruðum og óvirkum ölkum og fyrrverandi sprautufíklum.

Um leið er full ástæða til að minnast þessara 15 sem létust undir fertugu því sennilega hefur stór hluti þeirra látist beint eða óbeint af notkun eiturlyfja eða misnotkun af öðru tagi, auk einhverra sem eldri voru og voru enn á kafi í misnotkun þrátt fyrir að hafa farið í meðferð á Vogi.

29. desember 2005 - Konráð Alfreðsson var ...

... mikið í fréttum í gær. Ekki var það vegna þess að neinar nýjar fréttir hafi borist af honum, heldur var honum mikið í mun að láta ljós sitt skína. Í Morgunblaðinu í gær vildi hann t.d. sameina alla sjómenn landsins í eitt stéttarfélag.

Ástæður þessara ummæla Konráðs eru þær að viðræður hafa staðið á milli Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum, Sjómannafélags Hornafjarðar og Sjómannafélags Eyjafjarðar um sameiningu og vill Konráð tryggja áframhald hugsanlegra sameininga með þátttöku félaga yfirmanna einnig auk hinna ýmsu sjómannadeilda og væntanlega einnig Sjómannafélags Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.

Á sama tíma og Konráð er að reyna að sameina félög sjómanna í eitt félag, er stjórn Vélstjórafélags Íslands að reyna að sameinast Félagi járniðnaðarmanna, því eins og ónefndur formaður bendir á, þá á hin nýja stétt vélfræðinga á þurru landi meira sameiginlegt með járniðnaðarmönnnum á þurru landi en með trillusjómönnum með minnstu réttindi til vélstjórnar.

Allt er þetta hið besta mál. Þeir mega sameinast sem þeir vilja. Þeir fá bara ekki atkvæðið mitt til þessarar sameiningar og gildir þá jafnt hvor óskin verður ofan á, ósk Konráðs Alfreðssonar eða ósk Helga Laxdal. Á sama hátt og ég sé ekki mikla framtíð í að sameina háseta á trillu á Dalvík í sama félag og vélfræðinga við Fljótsdalsvirkjun eða Ölgerð Egils Skallagrímssonar, þá sé ég jafnlitla ástæðu til sameiningar stéttarfélags rafsuðumanns hjá vélsmiðju í Reykjavík við stéttarfélag yfirvélstjóra á frystitogara eða stóru gámaskipi. Vélfræðingar hjá Orkuveitu Reykjavíkur hafa reynsluna af því hvernig það var að sitja fastir í stéttarfélagi með óviðkomandi starfsstéttum eins og raunin var þegar þeir voru þvingaðir til að vera í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og munum sum okkar ekkert kæra okkur um að lenda aftur í slíku samkrulli, hvort heldur er með trilluhásetanum á Dalvík eða rafsuðumanninum í Reykjavík.

-----oOo-----

Konráð Alfreðsson var einnig í sjónvarpsfréttum í gær. Þar lýsti hann yfir ótta sínum vegna hugsanlegs brotthvarfs starfa frá Akureyri með því að forstjóri Brims væri ekki Akureyringur og vildi vafalaust leggja niður landvinnslu Brims á Akureyri. Ég get tekið undir orð hans um þennan ótta og geri mér vissulega ljóst að slæmt er að glata fjölda atvinnutækifæra úr einu sjávarplássi þegar kvóti og landvinnsla hverfa í burtu. Kvótakerfið hefur einmitt leitt til slíks tilflutnings kvóta að veruleg fólksfækkun hefur orðið í einstöku sjávarplássum með því að kvótinn hefur verið seldur í burtu.

Skýrt dæmi um þetta var þegar togarinn Guðbjörg ÍS-46 var seldur á brott frá Ísafirði, en gefið í skyn að skipið myndi halda áfram að gera út þaðan. Ekki leið þó á löngu uns kvótinn var farinn og skipinu var flaggað út og síðar aftur heim, en í það skiptið á sama stað og kvótinn hafði lent. Vafalaust hefur Konráð Alfreðssyni sárnað, þótt hann hafi ekki sagt það beinum orðum, þegar Ísfirðingar misstu kvóta sinn til Akureyrar og Guðbjörgin hafði fengið hið nýja nafn, Baldvin Þorsteinsson EA-10.

þriðjudagur, desember 27, 2005

28. desember 2005 - Síðbúin jólasaga

Aðfangadagur jóla 1968. Bróðir minn, árinu eldri en ég hafði nokkru áður keypt sér gamlan Ford árgerð 1955 með úrbrædda vél og hafði verið að dunda sér við að gera upp vélina og komst bíllinn aftur á götuna á Þorláksmessu. Honum fannst tilvalið að prófa drusluna með því að fara austur á Hvolsvöll þar sem ein systir okkar bjó á þeim tíma og dvelja hjá henni og fjölskyldu hennar um jólin. Að sjálfsögðu var ég dregin með í ferðina austur þótt ég ætti að vera að lesa undir munnlega ökuprófið sem ég átti að fara í á þriðja í jólum.

Eftir að hafa tilkynnt að við værum að leggja af stað austur klukkan fjögur á aðfangadag og ætluðum að vera komin austur uppúr klukkan fimm, var lagt í hann og geyst austur Svínahraun og yfir Hellisheiðina í ljósaskiptunum og bíllinn dansaði af þrótti á ísuðum malarveginum. Það gekk vel niður gömlu Kambana og áfram til Selfoss. Umferðin var engin og stefndi í að við myndum ná austur á ætluðum komutíma.

Nokkru fyrir austan Selfoss komum við þar að sem bíll stóð kyrrstæður við vegarbrúnina og bílstjórinn með hausinn ofan í vélarrúminu að basla eitthvað. Þetta reyndist vera unglingsstrákur, á svipuðum aldri eða lítið eldri en við, á leið austur í Hreppa til foreldra sinna og hafði bíllinn byrjað að hiksta eftir að komið var í gegnum Selfoss og loks drepið á sér. Bróðir minn fór að basla við að hjálpa hinum að gera við ætlaða bensínstífluna, en ekkert gekk. Eftir að hafa átt við bíl drengsins í á annan klukkutíma gáfust þeir upp, settu spotta á milli bílanna og svo var hinn dreginn upp í Hreppa og alla leið heim til föðurhúsa félagans þar sem vel var tekið á móti honum. Við héldum hinsvegar áfram ferð okkar og var mágur okkar kominn á fremsta hlunn að kalla út lið til að leita okkar þegar við birtumst loksins á Hvolsvelli klukkan nærri níu á aðfangadagskvöld jóla.

Við eyddum svo jóladegi á Hvolsvelli og austur í Fljótshlíð, en á öðrum degi jóla var svo lagt af stað í átt til Reykjavíkur. Það var að sjálfsögðu ekið með sama hraða í átt til Reykjavíkur og á leiðinni austur. Vélin var að sjálfsögðu ennþá nýlega upptekin og var ekkert sérlega hrifin af meðferðinni á sér, enda fór það svo að á leiðinni upp Kambana skaut hún úr sér stimplum og lauk þar með ævi sinni. Það var ljóst að lengra yrði ekki haldið að sinni, bíllinn látinn renna niður uns komið var á öruggan stað og farið á puttanum til Reykjavíkur.

Bíllinn var svo sóttur austur daginn eftir og skipt um vél í honum eftir áramótin. Hvernig það ævintýri fór, er svo efni í aðra sögu sem verður ekki sögð hér. Ég mætti hinsvegar illa lesin í munnlega bílprófið að morgni þriðja í jólum og náði því ágætlega.

27. desember 2005 - Blaut jól

Fyrir jólin var mikið þráttað um hvort yrðu hvít jól eða rauð jól og nú sér hver sannleikann. Jólin voru blaut.

Það hafði verið ágætis veður fyrrihluta aðfangadags, en þá fór að rigna og á aðfangadagskvöld var vart stætt á sumum bílastæðum vegna blautrar hálkunnar, sérstaklega í efri byggðum. Þegar Veðurstofan framkvæmdi sína hefðbundnu mælingu á lit jólanna á jóladag klukkan níu voru jólin rennblaut og ekki sást snjókorn neinsstaðar. Um eftirmiðdaginn fór að snjóa.

Er ég leit út á annan dag jóla höfðu börn búið sér til snjókarla í garðinum á milli húsa hér í Hraunbænum. Snjórinn var blautur og gott að búa til snjókarla úr honum. Um kvöldið skrapp ég í hús og auðvitað hellirigndi á mig rétt eins og á aðfangadagskvöld.

Hvað hefur íslenska þjóðin gert af sér sem verðskuldar þessa refsingu Guðs og jólasveinanna? Eru þeir kannski að mótmæla biskupnum? Eða er Almættið kannski að hindra för feita kókakólakallsins en sá ku ferðast um á hreindýrasleða og drekka negrapiss í öll mál. Eitt er þó víst. Ég er alsaklaus af þessum veðrabrigðum.

sunnudagur, desember 25, 2005

26. desember 2005 - Um vinsældir jólasveina

Framkvæmd hefur verið skoðanakönnun um vinsældir jólasveinanna og reyndist Steini litli, afsakið Stúfur, vera langvinsælastur, enda minnstur og vesælastur. Meðal vinstrigrænna reyndist hinsvegar Kertasníkir hafa vinninginn. Það er mjög eðlilegt því þeir sem trúa á jólasveina halda gjarnan að Kertasníkir geti leyst raforkufyrirtækin af hólmi og veitt okkur birtu og yl án þess að nýta sér auðlindir þjóðarinnar. Sjálf er ég auðvitað einnig mest hrifin af Kertasníki, enda ígildi vélfræðingsins meðal jólasveinanna á meðan stýrimaðurinn er eins og Gáttaþefur, sífellt þefandi eftir því hvað brasarinn er að elda niðri í eldhúsi.

Öryrkinn í hópi jólasveinanna, sjálfur Stekkjastaur, reyndist fremur óvinsæll meðal Framsóknarmanna. Það vissum við alveg og hafa öryrkjar ekki átt upp á pallborðið í þeim flokki á seinni árum. Messaguttinn í hópnum, Askasleikir, var þó óvinsælastur meðal þjóðarinnar sem dýrkar hina ríku og flottu og trúir á Mammon, en fyrirlítur þá sem hafa orðið undir í samfélaginu eins og messaguttana og hirðingjana í Betlehem. Svo er biskupinn búinn að skipa sér í hóp með Séra Flóka og hættur að trúa á jólasveina. Ætli hann sé líka hættur að trúa á heilögu eimyrjuna? Ég held ég hætti að trúa á biskupinn og trúi bara á Almættið og jólasveinana héðanaf.


Ég er búin að bæta við nokkrum myndum í myndaalbúmið mitt, nokkurri viðbót við Vínarferðina í nóvember, en tveimur albúmum að auki, einu með myndum af vinstrigræna Súbarúinum mínum og einu með myndum af nokkrum prömmum sem ég hefi siglt á. Þar eru reyndar mjög fáar myndir komnar enn sem komið er, enda er skanninn bilaður og mig vantar að auki margar myndir sem gott væri að hafa með.


Ég ætlaði mér að hætta að blogga á gamla blogginu um áramót. Það er hinsvegar orðið svo leiðinlegt að í hvert sinn sem ég fer inn á bloggsíður frá blog.central.is/notandi, þá fæ ég merki um að ég sé dottin út af netinu. Því gefst ég upp á þessu rusli mun fyrr en ella væri og mun blogga einvörðungu á blogspot frá og með deginum í dag.

25. desember 2005 - Jóladagur

Það er víst fátt hægt að blogga um eins og er, ég er troðin af góðum mat og kem engu meiru niður. Ég óska öllum áframhaldandi gleðilegrar hátíðar og megið þið njóta jólanna sem best.

laugardagur, desember 24, 2005

24. desember 2005 - Gleðileg jól

Eins og alþjóð ætti að vera kunnugt á þessari stundu, þá eignaðist ég þessi líka fínu leðurstígvél í gærkvöldi og að sjálfsögðu setti ég þau út í glugga í nótt. Og sjá, minn kæri jóli kom eftir að ég sofnaði og laumaði þessum líka dýrindis Glenna í skóinn minn, 21 árs gömlum. Þetta var líka þessi indæli jólasveinn sem veitir okkur birtu og yl, sjálfur Kertasníkir.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.

commenting and trackback have been added to this blog.

24. desember 2005 - Af Þorlák og aðfangadegi jóla

Það var á Þorláksmessukvöld. Ég hafði tekið þátt í friðargöngunni miklu og skotist heim, en nú var ég ákveðin í að fara aftur í bæinn og var að flýta mér. Ég renndi niður Hálsabrautina þaðan sem ég beygði upp afreinina og upp á Vesturlandsveginn til vesturs. Það var flutningabíll sem ók fremur hægt á hægri akrein. “Þetta er ómögulegt” hugsaði ég gaf stefnuljós til vinstri og gaf allt í botn um leið og ég þeystist áfram á mínum vinstrigræna Subaru og fékk yfir mig væna gusu af skít frá flutningabílnum.

Í gegnum skítuga framrúðuna sýndist mér ég sjá bremsuljós. Ég fór að sprauta ísvara á framrúðuna um leið og ég reyndi að hægja á mér og bremsa. Rétt fyrir framan mig voru þrír bílar í hnapp og fremsti bíllinn, flutningabíll var að keyra inn á staðinn við Höfðabakkabrúna þar sem löggan bíður stundum þegar hún er að mæla hraða bifreiða. Mér fannst næsti bíll vera aðeins örfáum bíllengdum fyrir framan mig og nauðhemlaði. Í huganum sá ég þúsundkallana hverfa úr veskinu og fór að velta fyrir mér hvort ég eigi að skella mér til hægri á flutningabílinn við hliðina á mér eða niður í geilina á milli akbrautanna. Áður en ég þurfti að taka ákvörðun fann ég hvernig minn vinstrigræni Subaru lét að stjórn og mér tókst að stoppa í tíma án þess að lenda á kyrrstæðum bílnum fyrir framan mig. Allt fór vel og ég gat haldið ferð minni áfram niður í bæ.

Ég lagði bílnum á góðum stað við ofanverðan Laugaveg og labbaði svo niður í bæ þar sem mikill mannfjöldi var samankominn. Mér fannst ég eiga skilið að verðlauna sjálfa mig fyrir snarræðið á Vesturlandsveginum. Ég kom við í skóbúð og keypti mér flott leðurstígvél. Verðið var hátt, en þó miklu minna en kostnaður minn hefði verið ef ég hefði lent aftan á bílnum.

Með þessum orðum vil ég óska lesendum þessa bloggs gleðilegra jóla, árs og friðar. Megið þið njóta helgarinnar.

föstudagur, desember 23, 2005

23. desember 2005 - Jólaundirbúningur

Þessa dagana er í öllum fjölmiðlum verið að tala um jólastress. Rás 2 sem áður hélt sig við jólalögin síðustu 13 dagana fyrir jól, byrjaði nú að spila jólalögin í nóvember, en var kannski síðust allra að byrja spilverkið. Svo eru sjónvarpsstöðvarnar verstar með endalausu þvargi um jólastress auk þess sem þær flytja óvenjuoft fréttir úr verslanamiðstöðvum og hvernig gengur að höndla jólahamingjuna.

Í gærkvöldi flutti Kastljós sjónvarpsins þátt um fólkið sem er að vinna á jólunum. Þótt ágæt kunningjakona mín væri í þeim hópi sem rætt var við og stóð sig með prýði sem hennar er von og vísa, þá get ég ekki annað en brosað út í annað að tala um að vera bundin á vakt yfir jólin. Fyrir mér er það frekar eins og að vera í fríi, allavega ef borið er saman við jól á sjó. Kastljósþátturinn fjallaði ekki um jól á sjó, bara fólk sem fer á næturvakt klukkan átta á aðfangadagskvöld eða sem hefur vakt eða lýkur vakt um miðnættið og fer svo heim og heldur jól.

Sjálf hefi ég eytt ellefu jólum á sjó eða í höfn erlendis. Ég hirði ekki að tala um þau jól þar sem ég var á vakt á þurru landi eins og hjá Orkuveitu Reykjavíkur eða áður hjá Orkuveitu Stokkhólmsborgar. Þó eru nokkur jól á sjó mér eftirminnilegust.

Fyrstu jólin mín á sjó var ég á flutningaskipi og áætlunin var að koma til Reykjavíkur fjórum dögum fyrir jól. Vegna farmannaverkfalls var okkur beint frá landinu og var aðfangadagskvöldi jóla eytt sex hundruð mílum fyrir sunnan Ísland í kolvitlausu veðri á leið okkar frá Nýfundnalandi til Finnlands. Ári síðar var ég í Vélskólanum og skrapp jólatúr á síðutogarann Sigurð (nú nótaskipið Sigurð frá Vestmannaeyjum). Trollið var híft skömmu fyrir klukkan sex á aðfangadagskvöld og allt í henglum og þurftu hásetarnir að basla við netabætningar á dekki allt aðfangadagskvöld, en ég hafði það huggulegt niðri í vél. Minnisstæðust voru þó kannski jólin 1986, en þá vorum við í höfn í Riga í Lettlandi (þá Sovétríkjunum) á honum Álafossi og var byrjað að lesta skipið um klukkan sex á aðfangadagskvöld. Þegar leið á kvöldið var að sjálfsögðu stöðugur straumur fólks upp í loftskeytaklefa til að hringja heim í gegnum Nesradíó. Þar sem ég var að bíða eftir að komast í símann, kom skyndilega neyðarkall frá skipi sem hafði lagst á hliðina norður af Færeyjum og var að sökkva. Með því að við höfðum opna rásina fyrir neyðarköllin fylgdumst við með vonlausri baráttu áhafnarinnar uns hún yfirgaf skip sitt er það sökk. Við vorum í öruggri höfn, en mikið skelfing var erfitt að sofna þessa jólanótt vitandi af áhöfninni á Suðurlandinu í baráttu fyrir lífi sínu. Öll íslenska þjóðin veit hvernig sú barátta endaði.

Að vera á vakt á spítala eða hjá Orkuveitunni er hjóm eitt samanborið við að vera á sjó.

fimmtudagur, desember 22, 2005

Um launahækkanir æðstu embættismanna

Enn og aftur er allt orðið vitlaust í samfélaginu vegna launaákvörðunar Kjaradóms til handa forseta Íslands og annarra æðstu embættismanna þjóðarinnar. Ég er ekki alveg sammála þessum gagnrýnisröddum nema að mjög litlu leyti, heldur tel ég að veita eigi þessum mönnum laun í hlutfalli við ábyrgð þeirra á stjórnarathöfnum sínum. Þannig fær Geir Haarde áfram sæmileg laun fyrir að hafa passað vel upp á ríkiskassann og Guðni beljukyssir fær sömuleiðis smávægilega launahækkun fyrir alúð sína gagnvart íslenskum landbúnaði, en menntamálaráðherrann heldur sínum launum fyrir röggsemi í stjórnun sem reiknast þó niður vegna væntanlegs niðurskurðar á menntaskólanáminu.

Aðrir ráðherrar fá laun í samræmi við störf sín. Árni Magnússon verður hýrudreginn fyrir að hafa brotið jafnréttislög, en Jón Kristjánsson fær að sjálfsögðu sömu verðlaun og hann verðlaunaði öryrkja með í haust, þ.e. bakreikning frá Ríkisféhirði. Versta útreið fær þó Sturla Böðvarsson sem hefur ekkert gert af viti síðan hann tók við ráðherradómi. Það reiknast ekki sem viðurkenning er hann fór til Hamborgar til að taka á móti nýju skipi Færeyinga fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og fær hann því reisupassann.

Með slíku afkastahvetjandi launakerfi ættu allir æðstu embættismenn þjóðarinnar að geta unað glaðir við sitt.

-----oOo-----

Eins og notendur Blog.central.is hafa tekið eftir að undanförnu hefur verulega verið dregið úr þjónustu við þá að undanförnu, en auglýsingamagnið hefur aukist að sama skapi. Ég á erfitt með að una þessu og bendi lesendum mínum á að ég er að undirbúa nýja bloggsíðu sem mun væntanlega taka gildi um áramót og verður bloggfærslum hjá Blog.central.is þá hætt. Ég er enn að læra á þessa nýju síðu og get því ekki virkjað hana að fullu fyrr en náminu er lokið. Valur Geisli var að sjálfsögðu fyrstur til að reka augun í þessa væntanlegu breytingu og þakka ég honum athyglina.

miðvikudagur, desember 21, 2005

Enn einu sinni geri ég tilraun til að blogga á þessum server. Því eins og einhver sagði: Allt er betra en 365 miðlar sem eru að eyðileggja blog.central.is með því að henda öllu persónulegu út og setja inn auglýsingar í staðinn.