sunnudagur, desember 25, 2005

26. desember 2005 - Um vinsældir jólasveina

Framkvæmd hefur verið skoðanakönnun um vinsældir jólasveinanna og reyndist Steini litli, afsakið Stúfur, vera langvinsælastur, enda minnstur og vesælastur. Meðal vinstrigrænna reyndist hinsvegar Kertasníkir hafa vinninginn. Það er mjög eðlilegt því þeir sem trúa á jólasveina halda gjarnan að Kertasníkir geti leyst raforkufyrirtækin af hólmi og veitt okkur birtu og yl án þess að nýta sér auðlindir þjóðarinnar. Sjálf er ég auðvitað einnig mest hrifin af Kertasníki, enda ígildi vélfræðingsins meðal jólasveinanna á meðan stýrimaðurinn er eins og Gáttaþefur, sífellt þefandi eftir því hvað brasarinn er að elda niðri í eldhúsi.

Öryrkinn í hópi jólasveinanna, sjálfur Stekkjastaur, reyndist fremur óvinsæll meðal Framsóknarmanna. Það vissum við alveg og hafa öryrkjar ekki átt upp á pallborðið í þeim flokki á seinni árum. Messaguttinn í hópnum, Askasleikir, var þó óvinsælastur meðal þjóðarinnar sem dýrkar hina ríku og flottu og trúir á Mammon, en fyrirlítur þá sem hafa orðið undir í samfélaginu eins og messaguttana og hirðingjana í Betlehem. Svo er biskupinn búinn að skipa sér í hóp með Séra Flóka og hættur að trúa á jólasveina. Ætli hann sé líka hættur að trúa á heilögu eimyrjuna? Ég held ég hætti að trúa á biskupinn og trúi bara á Almættið og jólasveinana héðanaf.


Ég er búin að bæta við nokkrum myndum í myndaalbúmið mitt, nokkurri viðbót við Vínarferðina í nóvember, en tveimur albúmum að auki, einu með myndum af vinstrigræna Súbarúinum mínum og einu með myndum af nokkrum prömmum sem ég hefi siglt á. Þar eru reyndar mjög fáar myndir komnar enn sem komið er, enda er skanninn bilaður og mig vantar að auki margar myndir sem gott væri að hafa með.


Ég ætlaði mér að hætta að blogga á gamla blogginu um áramót. Það er hinsvegar orðið svo leiðinlegt að í hvert sinn sem ég fer inn á bloggsíður frá blog.central.is/notandi, þá fæ ég merki um að ég sé dottin út af netinu. Því gefst ég upp á þessu rusli mun fyrr en ella væri og mun blogga einvörðungu á blogspot frá og með deginum í dag.


0 ummæli:Skrifa ummæli