fimmtudagur, desember 29, 2005

29. desember 2005 - 2. kafli - 134 fíklar

Mér brá í brún í morgun þegar ég sótti blöðin niður í póstkassa og sá forsíðuna á Fréttablaðinu. Þar var stór fyrirsögn á forsíðu þess efnis að 134 aðilar sem hefðu verið í meðferð á Vogi hefðu látist á fyrstu átta mánuðum ársins. Þetta er hræðilegt hugsaði ég með mér og í huganum sá ég fyrir mér lík sprautufíkla eins og hráviði í sérhverju skúmaskoti, undir tré eða inni á klósetti á Hlemmi, minnug fólksins sem fannst látið á Frakkastíg um jólin.

En samt, mér fannst talan grunsamlega há. Ég hafði átt erindi niður á Hlemmtorg á Þorláksmessu og ekkert sá ég líkið hvorki innandyra né utan. Kannski leitaði ég þeirra ekki eða að ég var þarna í öðrum erindagjörðum en að leita að líki og því misst af einhverju. Miðað við þennan fjölda væru nú ekki margir fíklar enn á lífi svo nú hlyti að draga úr þessari ofneyslu fíkniefna sem fjölmiðlar eru sínkt og heilagt að segja frá.

Ég fór að lesa fréttina sem var myndskreytt á forsíðu með þeim Þórarni Tyrfingssyni lækni á Vogi og Matthíasi Halldórssyni aðstoðarlandlækni, en með mynd af sprautu inni í blaðinu. Þá rann upp fyrir mér ljós. Fréttin var fölsk. Þetta var einfaldlega samantekt yfir það fólk sem hafði einhverntímann verið í meðferð á Vogi og síðar látist af hinum ýmsu sjúkdómum, hjartasjúkdómum, krabbameini eða einhverju öðru sem leitt getur fólk til dauða auk þeirra sem létust af völdum alkóhóls eða fíkniefna. Sem betur fer öðlast fólk ekki eilíft líf af því einu að hafa lent inni á Vogi, því þá yrði samfélagið brátt yfirfullt af háöldruðum og óvirkum ölkum og fyrrverandi sprautufíklum.

Um leið er full ástæða til að minnast þessara 15 sem létust undir fertugu því sennilega hefur stór hluti þeirra látist beint eða óbeint af notkun eiturlyfja eða misnotkun af öðru tagi, auk einhverra sem eldri voru og voru enn á kafi í misnotkun þrátt fyrir að hafa farið í meðferð á Vogi.


0 ummæli:Skrifa ummæli