fimmtudagur, desember 29, 2005

29. desember 2005 - Konráð Alfreðsson var ...

... mikið í fréttum í gær. Ekki var það vegna þess að neinar nýjar fréttir hafi borist af honum, heldur var honum mikið í mun að láta ljós sitt skína. Í Morgunblaðinu í gær vildi hann t.d. sameina alla sjómenn landsins í eitt stéttarfélag.

Ástæður þessara ummæla Konráðs eru þær að viðræður hafa staðið á milli Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum, Sjómannafélags Hornafjarðar og Sjómannafélags Eyjafjarðar um sameiningu og vill Konráð tryggja áframhald hugsanlegra sameininga með þátttöku félaga yfirmanna einnig auk hinna ýmsu sjómannadeilda og væntanlega einnig Sjómannafélags Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.

Á sama tíma og Konráð er að reyna að sameina félög sjómanna í eitt félag, er stjórn Vélstjórafélags Íslands að reyna að sameinast Félagi járniðnaðarmanna, því eins og ónefndur formaður bendir á, þá á hin nýja stétt vélfræðinga á þurru landi meira sameiginlegt með járniðnaðarmönnnum á þurru landi en með trillusjómönnum með minnstu réttindi til vélstjórnar.

Allt er þetta hið besta mál. Þeir mega sameinast sem þeir vilja. Þeir fá bara ekki atkvæðið mitt til þessarar sameiningar og gildir þá jafnt hvor óskin verður ofan á, ósk Konráðs Alfreðssonar eða ósk Helga Laxdal. Á sama hátt og ég sé ekki mikla framtíð í að sameina háseta á trillu á Dalvík í sama félag og vélfræðinga við Fljótsdalsvirkjun eða Ölgerð Egils Skallagrímssonar, þá sé ég jafnlitla ástæðu til sameiningar stéttarfélags rafsuðumanns hjá vélsmiðju í Reykjavík við stéttarfélag yfirvélstjóra á frystitogara eða stóru gámaskipi. Vélfræðingar hjá Orkuveitu Reykjavíkur hafa reynsluna af því hvernig það var að sitja fastir í stéttarfélagi með óviðkomandi starfsstéttum eins og raunin var þegar þeir voru þvingaðir til að vera í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og munum sum okkar ekkert kæra okkur um að lenda aftur í slíku samkrulli, hvort heldur er með trilluhásetanum á Dalvík eða rafsuðumanninum í Reykjavík.

-----oOo-----

Konráð Alfreðsson var einnig í sjónvarpsfréttum í gær. Þar lýsti hann yfir ótta sínum vegna hugsanlegs brotthvarfs starfa frá Akureyri með því að forstjóri Brims væri ekki Akureyringur og vildi vafalaust leggja niður landvinnslu Brims á Akureyri. Ég get tekið undir orð hans um þennan ótta og geri mér vissulega ljóst að slæmt er að glata fjölda atvinnutækifæra úr einu sjávarplássi þegar kvóti og landvinnsla hverfa í burtu. Kvótakerfið hefur einmitt leitt til slíks tilflutnings kvóta að veruleg fólksfækkun hefur orðið í einstöku sjávarplássum með því að kvótinn hefur verið seldur í burtu.

Skýrt dæmi um þetta var þegar togarinn Guðbjörg ÍS-46 var seldur á brott frá Ísafirði, en gefið í skyn að skipið myndi halda áfram að gera út þaðan. Ekki leið þó á löngu uns kvótinn var farinn og skipinu var flaggað út og síðar aftur heim, en í það skiptið á sama stað og kvótinn hafði lent. Vafalaust hefur Konráð Alfreðssyni sárnað, þótt hann hafi ekki sagt það beinum orðum, þegar Ísfirðingar misstu kvóta sinn til Akureyrar og Guðbjörgin hafði fengið hið nýja nafn, Baldvin Þorsteinsson EA-10.


0 ummæli:Skrifa ummæli