fimmtudagur, desember 22, 2005

Um launahækkanir æðstu embættismanna

Enn og aftur er allt orðið vitlaust í samfélaginu vegna launaákvörðunar Kjaradóms til handa forseta Íslands og annarra æðstu embættismanna þjóðarinnar. Ég er ekki alveg sammála þessum gagnrýnisröddum nema að mjög litlu leyti, heldur tel ég að veita eigi þessum mönnum laun í hlutfalli við ábyrgð þeirra á stjórnarathöfnum sínum. Þannig fær Geir Haarde áfram sæmileg laun fyrir að hafa passað vel upp á ríkiskassann og Guðni beljukyssir fær sömuleiðis smávægilega launahækkun fyrir alúð sína gagnvart íslenskum landbúnaði, en menntamálaráðherrann heldur sínum launum fyrir röggsemi í stjórnun sem reiknast þó niður vegna væntanlegs niðurskurðar á menntaskólanáminu.

Aðrir ráðherrar fá laun í samræmi við störf sín. Árni Magnússon verður hýrudreginn fyrir að hafa brotið jafnréttislög, en Jón Kristjánsson fær að sjálfsögðu sömu verðlaun og hann verðlaunaði öryrkja með í haust, þ.e. bakreikning frá Ríkisféhirði. Versta útreið fær þó Sturla Böðvarsson sem hefur ekkert gert af viti síðan hann tók við ráðherradómi. Það reiknast ekki sem viðurkenning er hann fór til Hamborgar til að taka á móti nýju skipi Færeyinga fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og fær hann því reisupassann.

Með slíku afkastahvetjandi launakerfi ættu allir æðstu embættismenn þjóðarinnar að geta unað glaðir við sitt.

-----oOo-----

Eins og notendur Blog.central.is hafa tekið eftir að undanförnu hefur verulega verið dregið úr þjónustu við þá að undanförnu, en auglýsingamagnið hefur aukist að sama skapi. Ég á erfitt með að una þessu og bendi lesendum mínum á að ég er að undirbúa nýja bloggsíðu sem mun væntanlega taka gildi um áramót og verður bloggfærslum hjá Blog.central.is þá hætt. Ég er enn að læra á þessa nýju síðu og get því ekki virkjað hana að fullu fyrr en náminu er lokið. Valur Geisli var að sjálfsögðu fyrstur til að reka augun í þessa væntanlegu breytingu og þakka ég honum athyglina.

1 ummæli: