laugardagur, desember 31, 2005

1.janúar 2006 - Áramót og annáll ársins

Þessi pistill gildir fyrir 1. janúar sökum mikilla anna við að tæma flösku af 21 árs gömlum Glenna.

Árið hófst með því að ég fór að pakka. Ég hafði búið í þrengslum í alltof lítilli íbúð efst á Breiðholtsjökli um nokkurra ára skeið og nú var kominn tími til að komast í rúmbetra húsnæði. Flutningsdagurinn var svo ákveðinn 29. janúar svo mér ynnist tími til að skila gömlu íbúðinni um mánaðarmót.

Laugardagurinn 29. janúar rann upp hlýr og fagur, en svo heita góðir dagar í ævintýrunum. Ekki var það svo gott hjá mér því þann daginn var hellirigning og rok. Ekki beint heppilegur dagur til flutninga. Það var samt lagt í hann og þrátt fyrir nokkuð heilsuleysi og flensu tókst mér að flytja með góðri hjálp og skila af mér í samræmi við áður gefin loforð. Kisan Glóey í næstu íbúð fékk ekki að flytja með mér, en síðar frétti ég að hún hefði grátið mörgum tárum við svaladyrnar eftir að ég var farin.

Að þessu frátöldu og tveimur veikindadögum eftir flutningana, gekk árið eins og eftir reglustrikunni. Ég mætti á vaktina og fór heim aftur eftir vaktina og gerði yfirleitt fátt annað en að sofa og vinna, fékk mér stöku öl og þau skipti sem ég fór út að skemmta mér voru teljandi á fingrum annarrar handar. Ég fór einu sinni í leikhús en aldrei í bíó. Þá heiðraði ég Næstabar með nærveru minni að minnsta kosti fjórum sinnum á árinu.

Ég ferðaðist lítið. Þó fór ég norður til Akureyrar og heimsótti gamlan skipsfélaga sem var kominn með krabbamein. Tveimur vikum síðar fór ég aftur norður, í það skiptið til að kveðja þennan ágæta fyrrum skipsfélaga minn. Auk þessa fór ég einu sinni á vegum vinnunar austur á firði að skoða framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun og nýja álverið á Reyðarfirði. Eins og gefur að skilja, miðað við öll þessi ferðalög, þá ók ég ekki marga kílómetra á árinu. Ekki var það til að bæta úr að ég gekk oftast til og frá vinnu.

Ég fór eina utanlandsferð, en það var til Vínar í gegnum Stansted og Bratislava á fyrsta þing evrópsku transgendersamtakanna. Á þinginu sem stóð yfir í þrjá daga lagði ég fátt af viti til málanna en tókst samt að kjafta mig inn í miðstjórn samtakanna. Fyrir bragðið er ég strax farin að hlakka til næsta miðstjórnarfundar sem er fyrirhugaður í Sviss í lok mars á nýju ári.

Litlar breytingar voru á tölu nánustu ættingja á árinu, engin ný barnabörn fædd, ekkert dauðsfall í fjölskyldunni og minnir mig að einungis eitt barn hafi bæst við í fjölskyldunni. Öllu róttækari voru breytingarnar í sjálfri ættinni. Með því að Íslendingabók viðurkenndi kröfur mínar um nýjan langafa, tókst mér að reka Björn Inga Hrafnsson úr ætt við mig í refsingarskyni fyrir að hafa velt Alfreð Þorsteinssyni úr sessi sem leiðtoga Framsóknarflokksins í Reykjavík. Um leið og Björn Ingi fauk út, fóru einnig Ómar Ragnarsson, Björgvin Halldórsson og Steinn Ármann Magnússon sem og nokkrir skáksnillingar, en það mátti líka kosta talsvert að losna við Björn Inga Hrafnsson. Á móti kom að í refsingarskyni við Rás2 sem hafði hunsað vilja hlustenda sinna sem vildu endurkjósa Svanhildi Hólm sem kynþokkafyllstu konu ársins 2005, fyrir þá sök eina að hún hafði hætt hjá Ríkisútvarpinu og tóku inn einhverja lítt þekkta þulu í staðinn, þá tók ég hana inn í föðurættina hjá mér þótt ættartengslin séu svo lítið að vart verðum við frænkur úr þessu.

Ekki má gleyma fjölgun á mínu eigin heimili. Tvær kisur fæddust 11 apríl og hafa búið hjá mér síðan í lok maí og dafna vel. Ekki fór allt þó eins og talið var í fyrstu, en önnur kisan var vandlega kyngreind af tveimur færustu sérfræðingum landsins á þessu sviði og kölluð Kolbeinn. Í júlí fór ég með Tárhildi og Kolbein á Dýraspítalann í sprautu og staðfestingu á kyngreiningu og heim fór ég með Tárhildi og Hrafnhildi.

Í lok ársins fór ég í fýlu út í 365 miðla sem höfðu tekið yfir gamla bloggið mitt, hent allri historík út nema ég borgaði meira og síðan hlaðið inn auglýsingum. Eftir það er ég með þetta nýja blogg mitt sem mun vonandi endast betur en hið gamla. Mér tókst að halda gamla blogginu mínu úti í 512 daga áður en ég gafst upp á því. Á þessum 512 dögum skrifaði ég um 540 pistla og fékk 64355 heimsóknir á síðuna sem eru um 125 heimsóknir á dag að jafnaði. Þessa átta daga sem ég hefi haldið talningu á nýju síðunni minni eru heimsóknirnar orðnar 1176 eða 147 á dag frá netþjónum í ellefu löndum og er þá miðað við klukkan níu á gamlárskvöld.

Ekki má birta þokkalegan áramótapistil án þess að íþrótta sé getið. Þar ber fremst hinn háaldraða heimsmethafa Michael Schumacher sem lét heimsmeistaratitil sinn af hendi á árinu, enda taldi hann eðlilegt að einhverjir yngri menn fengju titil einu sinni svo hann sæti ekki einn að titlinum um aldur og ævi. Heimsmethafinn er reyndar orðinn svo aldraður að hann er einungis fjórum dögum yngri en ökuskírteinið mitt.

Af helstu tíðindum úr knattspyrnunni er þess að geta að hetjurnar hugumstóru í Halifaxhreppi voru komnar hættulega nærri því að hafna í langneðstu deild á síðasta vori, en með því að beita fyrir sig ólympíuhugsuninni í nokkrum síðustu leikjum sínum, tókst þeim að koma í veg fyrir slíkan skaða á knattspyrnuíþróttinni. Að undanförnu hefur fátt verið tíðinda af hetjunum. Þeim tókst naumlega að komast úr fyrstu umferð bikarkeppninnar fyrir mánuði er Lárus Bryti markmaður kastaði sér snarlega í hitt hornið er skotið var á markið í vítaspyrnukeppni. Þá verða hetjurnar nú að gæta sín í kvenfélagsdeildinni, því þær hafa misst boltann nokkuð oft í mark andstæðinganna, en andstæðingarnir ekki jafnduglegir að skora hjá þeim. Því eru þær komnar aftur í bullandi hættu á að lenda aftur í langneðstu deild í vor og verma nú 4-5. sæti kvenfélagsdeildarinnar eftir súran sigur á Skarnaborg í tilefni af afmæli mínu í gær.

Fyrir þremur árum gaf ég sjálfri mér það nýársheit að ná af mér 12 kílóum á árinu. Það gekk vel í upphafi og stefndi talan hraðbyri niður á við í nokkra mánuði. Svo gerðist ég kærulaus og stóð talan í stað nokkuð lengi, en um áramót þau sem ég hafði miðað við var árangurinn orðinn um 60% af ætluðu takmarki. Í dag hefi ég náð að bæta á mig öllum þeim kílóum sem ég hafði áður misst og að auki bætt á mig þremur til viðbótar. Ég ætla því að endurnýja heit mitt og ná af mér þessum fimmtán kílóum á árinu 2006.

Eins og sést af þessari upptalningu er ekkert að frétta af mér. Með þessum orðum óska ég öllum árs og friðar og sendi þakkir til allra sem hafa nennt að lesa bloggið mitt.


0 ummæli:Skrifa ummæli