mánudagur, janúar 02, 2006

2. janúar 2006 - Halldór Ásgrímsson ...

...flutti áramótakveðju sína til þjóðarinnar á gamlárskvöld. Þar viðraði hann skoðanir sínar á mönnum og málefnum, þar á meðal öldruðum og öryrkjum. Megnið af ræðu hans var marklaust hjal sett fram til að slá ryki í augu almennings, en öllu verri var sú stefna gegn öldruðum og öryrkjum sem hann boðaði:

"Við megum aldrei gleyma því að aldraðir hafa átt stóran þátt í að skapa þá velsæld sem nú ríkir og þeir eiga að geta notið ævikvöldsins með reisn. Helst sem lengst á eigin heimili og meðan heilsan leyfir úti í atvinnulífinu þar sem reynsla og viska þeirra getur komið að góðum notum."

Það hefur löngum verið farið illa með aldraða í þessu landi, en orð Halldórs benda til þess að nú eigi að hætta að greiða öldruðum með lélegan lífeyrissjóð tekjutryggingu sem er þó ekki hærri en svo vart er hægt að skrimta af henni. Einfaldasta ráðið til þess er að reka öll vinnufær gamalmenni í að kafa eftir dósum og flöskum í ruslatunnum, allavega að halda þeim úti á vinnumarkaði uns heilsan þrýtur og dauðinn bíður handan við hornið.

"Ríkisstjórnin hefur í samráði við aðila vinnumarkaðarins ákveðið að gera sérstakt átak í málefnum þeirra (þ.e. öryrkja) og leggja áherslu á starfsendurhæfingu og gera þær ráðstafanir sem auðvelda mega öryrkjum að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Þeir, eins og aldraðir, eru ekki einsleitur hópur og sömu úrræði henta ekki öllum. Margir búa við slík örkuml að engin von er um atvinnuþátttöku og verður að hlúa vel að þessum hópi. Aðrir geta fundið störf við sitt hæfi með aðstoð og þjálfun. Mikilvægt er að hverjum og einum sé gert kleift að leita sér lífsfyllingar og nýta þá möguleika sem bjóðast til hins ítrasta."

Ef þetta er stefna ríkisstjórnarinnar í málum öryrkja, skil ég vel því öryrkjar fengu ekki að vera með í upphaflegri nefnd sem ríkisstjórnin skipaði í málefnum öryrkja. Þetta virðist hljóma við fyrstu sýn sem ómengaður Thatcherismi í stíl Hannesar Hólmsteins og máltækisins “Neyðin kennir naktri konu að spinna”. Sjálfri datt mér fyrst í hug að nú ætti að láta sverfa til stáls gegn öryrkjum og afnema allar bætur til þeirra sem geta hreyft sig að einhverju leyti, en loka hina inni á hæli. Slíkt hefur sosum verið framkvæmt áður og er mjög í anda þeirra afturhaldsafla sem vilja brjóta niður velferðarkerfið.

Ég ætla að vona að hugsun Halldórs hafi verið önnur en sú sem gjörla má lesa úr orðum hans, en aðgerðir hans gegn öryrkjum á undanförnum mánuðum gefa ekki tilefni til bjartsýni á þessu sviði.

Einfaldasta ráðið er auðvitað að gefa þessari ríkisstjórn hvíldina góðu sem hún virðist eiga skilið, þá sérstaklega Framsóknarflokkurinn, en gefa Halldóri kost á embætti sendiherra við sendiráð Íslands í Kabúl í Afganistan þegar hann verður endanlega búinn að kála flokknum sínum með góðvild sinni.

Ég er svo hjartanlega sammála Þórði hér til hliðar hvað biskupinn varðar. Loksins erum við Þórður sammála.


0 ummæli:Skrifa ummæli