laugardagur, janúar 28, 2006

29. janúar 2006 - Björn Ingi Hrafnsson

Þá er prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík lokið og ljóst að frambjóðandi flokksforystunnar, Björn Ingi Hrafnsson, muni leiða flokkinn í kosningunum í vor. Ég fór hinsvegar að velta fyrir mér öðru atriði sem sýnir ágætlega gallana við opið prófkjör.

Þegar utankjörstaðaratkvæðin höfðu verið talin, reyndist Gestur Gestsson frambjóðandi sértrúarsafnaðanna og meðlimur í Fíladelfíusöfnuðinum, hafa fengið næstflest atkvæði þeirra sem greiddu atkvæði utankjörfundar. Um leið og farið að var að telja atkvæði sem greidd voru á kjörstað, hrundi fylgi hans niður í eitthvað sem er vart mælanlegt. Það bendir til að Gestur hefur smalað fylgi meðal sértrúarsafnaða og þar eru flestir fylgjendur Sjálfstæðisflokksins, að minnsta kosti á meðan Kristilegi lýðræðisflokkurinn er ekki í framboði. Margir þeirra eru auk þess flokksbundnir og láta ekki sjá sig á kjörstað þegar Framsókn er að velja sér frambjóðendur. Það var t.d. engin tilviljun að einn helsti forsprakki öfgatrúaðra, Gunnar Þorsteinsson, skildi vera áberandi við talningu þegar talið var upp úr kjörkössunum hjá Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi á dögunum.

Er þá ekkert annað eftir en að óska Birni Inga Hrafnssyni til hamingju með sigurinn.

----o----

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af fleiru en kosningaúrslitum þessa stundina. Uppáhaldsliðið mitt í ensku knattspyrnunni er í vondum málum þessa dagana, en Halifaxhreppur vann Ræningjana í Grænaskógi sem herma eftir KR í búningavali, með einu marki gegn engu í gær. Með þessum sigri eru hetjurnar komnar í þriðja sæti í ensku kvenfélagsdeildinni og með jafnmörg stig og liðið sem er í öðru sæti. Það er því ljóst að þær hafa gefið ólympíuhugsunina upp á bátinn um sinn og orðnar að gráðugum stigaræningjum þegar einungis fimmtán leikir eru eftir á þessari leiktíð. Ég leggst á bæn og óska þeim þess að tapa nokkrum leikjum svo þeim auðnist að snúa frá villu síns vegar og halda sig áfram í kvenfélagsdeildinni.

----o----

Svo vil ég óska Hafdísi Lilju í Borgarnesi til hamingju með daginn.


0 ummæli:Skrifa ummæli