mánudagur, janúar 09, 2006

9. janúar 2006 - Af jarðgangnagerð

Þær Krúnka og Pollýanna ásamt Chief Security Officer Þórði hafa talið sig hafa ráðið í drauma mína og telja draum minn um göng vera dæmi um andstöðu mína við göng. Það er rangt. Ég er mjög fylgjandi þessum göngum sem mig dreymdi í nótt og mörgum öðrum framkvæmdum.

Ég sé fyrir göng sem ná frá Ártúnsbrekkunni og undir miðjan Hofsjökul. Þar verður staðsett risastórt hringtorg og í miðju hringtorgsins verði lyfta sem nái upp á topp jökulsins þar sem komið verði fyrir útsýnispalli. Frá hringtorginu liggi svo göng til allra átta, Ísafjarðar, Akureyrar, Egilsstaða, Hornafjarðar, Vestmannaeyja. Til þess að greiða fyrir þessar miklu framkvæmdir, verði nokkkrir dalir stíflaðir, stíflan við Steingrímsstöð verði hækkuð í 160 metra, gerð risastífla við vesturenda Skorradals, Bárðardalur við Goðafoss í 400 metra hæð og byggðar stíflur í mynni nokkurra fjarða og reist raforkuver sem mögulegt er. Raforkan verði svo notuð til byggingar nýrra álvera og hagnaðurinn notaður í að ljúka fyrsttalda verkinu, en auk þess nokkur minni göng, t.d. beint frá Ísafirði til Reykjavíkur með pissustoppi í Búðardal....

Í alvöru. Ég hefi ekkert á móti nytsömum jarðgöngum. Ég viðurkenni fúslega að mjög vafasamt er hvort Héðinsfjarðargöng muni nokkru sinni borga sig, en er sannfærð um að göng til Vestmannaeyja eru þvættingur. Ég er hinsvegar mjög hlynnt göngum og öðrum vegabótum á Vestfjörðum og Austfjörðum, undir Vaðlaheiði og víðar þar sem slík framkvæmd er þjóðhagslega hagkvæm.

Þá get ég alveg séð fyrir mér göng frá Norðurárdal í Skagafirði yfir í Eyjafjarðardali til að losna við Öxnadalsheiðina auk vegabóta þar sem hreppapólitíkin er til trafala og ræður mestu um heimskulega vegamálapólitík í dag eins og á sér stað í Húnavatnssýslu.

Ég hefi margsinnis lýst því yfir að ég er fylgjandi framkvæmdum við Kárahnjúkastíflu og byggingu orkuvers í Fljótsdal auk álvers á Reyðarfirði. Stærstur hluti Austfirðinga er fylgjandi þessum framkvæmdum og þeir munu þurfa að standa eða falla með þessum framkvæmdum og afleiðingum þeirra. Það er staðreynd að talsverð fólksfækkun var víðast um Austfirði síðustu árin áður en ákveðið var að ráðast í þessar framkvæmdir. Nú hefur það snúist við og nú ríkir bjartsýni þarna. Ímyndum okkur að meirihluti Eyfirðinga ákveði að verða á móti virkjanaframkvæmdum og álveri í Eyjafirði. Þá myndi ég standa með þeim á sama hátt og ég stend núna með Austfirðingum og tala gegn álveri í Eyjafirði.

Ég get ekki annað en fylgst með Austfirðingum með aðdáun þessa mánuðina. Ef þið haldið að þetta hafi einhver áhrif á pólitískar skoðnir mínar, þá get ég alveg fengið mér vínrauðan Subaru í stað þess flöskugræna (vinstrigræna). Og hananú.

-----oOo-----

Svo er sennilega óhætt að óska Íslendingum til hamingju með að ná íbúa númer 300.000 í dag, mánudag, en íbúarnir voru 299.995 á miðnætti.


0 ummæli:Skrifa ummæli