sunnudagur, janúar 15, 2006

16. janúar 2006 - Sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur...

...hélt því fram í sunnudagsprédikun sinni og í útvarpsviðtali á eftir, að almenningur á Íslandi hefði misskilið biskupinn þegar hann vildi fara hægar í sakirnar og fresta lagasetningu sem gefur kirkjudeildum heimild til að vígja saman samkynhneigða í hjónaband.

Það hlaut að vera. Skelfing hefi ég verið vitlaus að trúa svona bókstaflega á orð biskups. Ég hlýt að vera orðin svona bókstafstrúar. Auðvitað meinti biskup allt annað en hann sagði. Ég fagna þessu mjög og trúi því og treysti að biskup reyni ekki að hafa áhrif á löggjafarvaldið og styðji framkomið frumvarp á Alþingi með þeirri breytingartillögu sem Guðrún Ögmundsdóttir hefur lagt fram.

Það er svo spurning hvort ekki þurfi að gefa út sérstaka orðabók svo þau ummæli sem biskupinn lætur frá sér fara skiljist rétt í framtíðinni?

-----oOo-----

Ég fylgdist með nýja sakamálaflokknum í sjónvarpinu í gærkvöldi og fannst byrjunin lofa góðu, mörg lítt þekkt andlit á skjánum og áhugaverð atburðarás. Þó var tvennt sem mér fannst athugavert við þessa mynd. Einhverjir eldri leikaranna léku eins og væru þeir á leiksviði, en ekki í kvikmynd og urðu þeir því óraunverulegir. Þá voru senur frá lögfræðiskrifstofu Ara teknar í ljótasta húsi Reykjavíkur, Ístakshúsinu við Engjateig, en veggir þar eru ýmist úr berum ómáluðum steini, glæru gleri eða ryðguðum járnplötum.

Ég man er ég kom þar inn í fyrsta sinn og spurði mann sem var að vinna þar í afgreiðslunni, af hverju hefði verið flutt inn í fokhelt húsið? “Það á að vera svona,” svaraði maðurinn hálfámáttlega.


0 ummæli:







Skrifa ummæli