föstudagur, janúar 13, 2006

13. janúar 2006 - Um biskup Íslands

Ég hefi einu sinni lent í hjónabandi. Hjónabandið reyndist byggt á sandi og eftir tæpan áratug var því kastað á ruslahaugana. Þó var það flokkað sem gagnkynhneigt hjónaband og blessað af Drottins þjóni (sá olli reyndar hneykslun innan prestastéttarinnar er hann skildi við konu sína og náði sér í sænskan sjúkraþjálfara), enda var til þess stofnað á tímum þegar samkynhneigt fólk var enn fordæmt af almenningi á Íslandi. Þegar ljóst var að skilnaður væri óumflýjanlegur, var haldið til prests sem staðfesti fyrir Guði og mönnum að hjónabandið væri best komið á ruslahaugunum. Umræddur prestur var séra Karl Sigurbjörnsson, núverandi biskup Íslands.

Einhverjum áratugum síðar lýsti þessi sami prestur því hvernig hjónabandið færi á ruslahaugana ef samkynhneigðir nytu sömu blessunar kirkjunnar og gagnkynhneigðir. Nokkur reiði varð út í biskup vegna þessara orða hans í nýársprédikun og urðu nokkur blaðaskrif vegna þessa. Sjálfur greip biskup til varnar og dró ekkert í land frá fyrri orðum sínum sbr frétt í Rikisútvarpinu 12. janúar.

Ég hefi aldrei talið mig heittrúaða. Ég trúi á eitthvert Almætti sem ég kalla Guð, en ég trúi ekki á Hann, þ.e. einhvern gamlan síðskeggjaðan karl í hvítum kjól á himnum. Fyrir mér er Almættið kynlaust, hið góða í okkur öllum, kærleikurinn og fyrirgefningin. Þá hafna ég einhverjum leiðarvísi í orðum sem einhverjir skrifuðu fyrir þúsundum ára síðan og eru uppfull af mótsetningum og fordæmingum og notað miskunnarlaust til fordæmingar, en hika ekki við að velja það sem er gott og uppbyggilegt í Nýja testamentinu til blessunar mannkyni öllu.

Þessar skoðanir mínar gera mér það ómögulegt að yfirgefa barnatrú mína fyrir einhvern sértrúarsöfnuð sem trúir bókstaflega á allt ritað í Biblíunni þótt það hafi hugsanlega tekið kúvendingum í tímanna rás. Á sama hátt get ég einnig hafnað einhverju embættismannavaldi sem afneitar kærleikanum fyrir fordómafullar kreddur í garð þeirra sem hafa kosið að njóta samvista og ástar án tillits til kynferðis.

Hingað til hefur mér ekki dottið til hugar að ganga úr þjóðkirkjunni. Ef biskup tekst að hindra að samkynhneigðir fái sömu réttindi og gagnkynhneigðir til hjónabands og kirkjulegrar blessunar, verð ég hinsvegar að endurskoða afstöðu mína til kirkjunnar sem opinberrar stofnunar.


0 ummæli:Skrifa ummæli