þriðjudagur, janúar 24, 2006

25. janúar 2006 - Gott fólk

Nágranni minn sem býr í blokkinni andspænis mér, fékk sér heimabíókerfi í haust. Það er með nærri 100” skjá eða meira, nánast eins og heill stofuveggur að horfa á kvikmyndir, sjónvarpsþætti, íþróttir og annað skemmtiefni. Algjör lúxus.

Ekki veit ég hvað þetta heimabíókerfi kostaði en dýrt hefur það verið. Þá veit ég ekkert um hljóðgæðin, því nágranni minn býr í 50 metra fjarlægð frá mér og stillir hljóðið svo lágt að ég heyri það ekki yfir bílastæðin. Ég neyddist því til að skella mér á sex mánaða heilsdagsnámskeið til að læra varalestur og nú fylgist ég með öllu sem fram fer í sjónvarpi nágranna míns. Ekki gerir það málin verri að hann er með sjónvarpið í gangi allan daginn og því missi ég ekki af neinu.

Ég gæti sagt upp áskriftinni að Ríkissjónvarpinu, ef ekki væri fyrir þá sök að nágranni minn er eitthvað lítið fyrir fréttir og veður og því næði ég ekki fréttunum, veðrinu og Kastljósinu ef ég væri ekki með eigið sjónvarpstæki.

----o----

Valur Geisli Höskuldsson sem á blogg hér til hliðar, stóð sig að sjálfsögðu með prýði í kvöld í Kastljósþætti, ávallt jafnstilltur, en hitti beint í mark með látleysi sínu og hógværð.

----o----

Svo langar mig til að þakka Gunnu í Gunnubúð kærlega fyrir sendinguna sem ég fékk með póstinum í dag. Hún kom sér vel og var vel þegin.


0 ummæli:Skrifa ummæli