föstudagur, janúar 06, 2006

6. janúar 2006 - Hjartaáfall eða heilablóðfall?

Einhverntímann endur fyrir löngu stóð ég í þeirri trú að ég vissi nokkurn veginn muninn á heilablóðfalli og hjartaáfalli, að hjartaáfall ætti upptök sín í hjartanu eða æðum sem liggja að því, en heilablóðfall stafaði af bilun í æðum sem liggja í heila. Nú hefi ég komist að því að ég veit ekkert um þessi mál.

Fyrir jólin fékk einhver gamall og akfeitur karl suður í Ísrael vægt hjartaáfall eða var það vægt heilablóðfall? Fréttirnar voru mjög misvísandi, sumstaðar að hann hefði fengið hjartaáfall, en aðrar fréttir hermdu að sá gamli hefði fengið heilablóðfall. Svo var kallinn settur í rannsókn og talið var að smurolíudælan væri farin að leka, að komið væri gat á stærð við títuprjónshaus á hjartað. Ég næ því samt ekki, af hverju á að setja karlinn í hjartaþræðingu ef hann er með gat á hjartanu. Sjálf fer ég ekki að bora út frárennslispípuna frá smurolíudælunni ef það er gat á dæluhúsinu, heldur fer ég og loka gatinu.

Svo fékk sá gamli sannanlega heilablóðfall í fyrradag og talið að það stafaði af blóðþynningarlyfjunum. Samt fæ ég stöðugt að heyra að þetta sé heilablóðfall númer tvö. Hitt hafi verið heilablóðfall. Þá hætti ég að botna í þessu. Gangráðurinn á aðalvélinni fer að vinna skrykkjótt og þá kemur gat á smurolíudæluna???

Ef ég gæfi upp þessa bilanalýsingu til sjós, yrði keyrt með mig beint í land þar sem stórvaxnir menn í hvítum sloppum tækju á móti mér og fyndu mér viðeigandi samastað. Þegar haft er í huga, að ég veit mun minna um heilablóðfall en ég taldi mig vita fyrir mánuði síðan, þá ætla ég þeim fréttamönnum sem færa mér fréttirnar af heilsufari umrædds gamalmennis að þeir gefi mér skýringar á þessu misræmi fréttanna.

Nema auðvitað að refsing Guðs hafi verið bæði heilablóðfall og hjartaáfall.

Þeim sem skömmuðu mig fyrir smásálarháttinn í gær til hughreystingar, skal ég líka biðja fyrir hinum vondu í nótt, að þeir megi bæta sig, ef ekki nú, þá á næsta tilverustigi.


0 ummæli:







Skrifa ummæli