sunnudagur, janúar 29, 2006

30. janúar 2006 - Stebbi stælgæ og Litir hafsins

Í lok sjöunda áratugarins var teiknimyndasería í gangi í Tímanum eftir Birgi Bragason þar sem söguhetjan Stebbi stælgæ var látinn ferðast í tímavél um mannkynsöguna með gítarinn meðferðis. Stebbi var dæmigerður unglingur sjöunda áratugarins, með hár niður á herðar, söng jejeje og spilaði bítlalög og rollinga á gítarinn sinn. Teiknimyndasería þessi var mjög vinsæl og umrædd og efa ég ekki að hún hefur aukið sölu dagblaðsins Tímans töluvert. Svo þegar Stebbi var búinn að ferðast um fornöldina, spilað fyrir grikki, rómverja og gyðinga sjálfum sér til bjargar og fornmönnum til skemmtunar eða hryllings og kominn inn á miðaldirnar með gítarinn einan að vopni, var hann handtekinn og tekinn af lífi og þannig lauk teiknimyndaseríunni snögglega.

Einhverntímann kvartaði ég yfir þessum endalokum Stebba stælgæ við Birgi Bragason og svaraði hann því til að hann hefði ekki nennt að halda þessum teiknimyndum áfram og sífelldum kröfum ritstjórnarinnar um áframhald seríunnar og því látið Stebba kveðja þetta jarðlíf mun fyrr en upphaflega var áætlað.

Á sama hátt og ég varð fyrir miklum vonbrigðum með snubbóttan endi sögunnar um Stebba stælgæ, varð ég fyrir miklum vonbrigðum með endalok sakamálaþáttanna “Allir litir hafsins eru kaldir”. Fyrsti þátturinn lofaði góðu þrátt fyrir nokkra hnökra eins og þann að láta ónefnda lögfræðiskrifstofu vera staðsetta í ljótasta húsi Reykjavíkur sem dró úr athyglinni að söguþræðinum. Annar þátturinn var öllu betri þar sem byggð var upp atburðarás í stíl við frábærustu leikflettur sakamálaþátta. Loks kom þriðji þátturinn og þá varð atburðarásin að engu.

Einhvernveginn fékk ég það á tilfinninguna að handritshöfundurinn hefði fengið leið á ófullgerðu handritinu og sett punkt fyrir aftan á sama hátt og Birgir Bragason fékk leið á Stebba stælgæ, klipparinn fékk leið á að klippa myndina og myndatökumaðurinn fékk leið á að filma.

Sumstaðar vantaði samhengið í klippinguna, Fokker flugvél sást fljúga yfir þorpi á Vestfjörðum og Metró flugvél lenti á flugvellinum og öll óupplýstu málin sem búið var að byggja upp spennu í kringum, enduðu hvergi.

Af hverju var ekki hægt að ljúka við þessa þætti með áframhaldandi uppbyggingu spennunnar og síðan að greiða úr flækjunum í lokin? Ég er sannfærð um að helstu sakamálahöfundar Íslands hefðu ekki látið standa sig að svona klúðri, fremur bætt við fjórða, fimmta og sjötta þætti. En kannski var best að enda þættina svona snögglega fyrst þolinmæðin var búin hjá höfundinum.

Ekki má gleyma að ofvirkur sonur aðalsöguhetjunnar varð skyndilega ljúfur sem lamb í lokin. Sennilega kominn á Rítalín í “Happý American Ending” sjónvarpsþáttanna.


0 ummæli:Skrifa ummæli