þriðjudagur, janúar 10, 2006

10. janúar 2006 - 300.000

Í gærmorgun urðu Íslendingar 300.000 samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Það er stórt stökk frá fyrsta heildarmanntali sem gert var í heiminum árið 1703, en þá voru Íslendingar taldir vera 50358. Síðar kom í ljós að vantalið var um nokkra einstaklinga og hafa fundist gögn um nokkra einstaklinga sem ekki voru með í umræddu manntali en voru sannanlega á lífi á þessum tíma.

Þess má geta að erindisbréf um manntal var sent Árna Magnússyni árið 1702 og mun hann sjálfur hafa sent erindisbréfið áfram til íslenskra embættismanna og þá mun nákvæmara en það bréf sem hann fékk sjálfur í hendur. Má því þakka Árna persónulega fyrir þetta fyrsta nákvæma manntal sem gert var í heiminum. Þess verður þó að geta, að umræddur Árni er ekki sá sem nú gegnir stöðu félagsmálaráðherra.

Tæpum hundrað árum síðar, í kjölfar móðurharðinda og mannfellis 1783-1784, hafði íbúum Íslands fækkað nokkuð, en voru þó taldir vera 47227 árið 1801. Þar vantar einnig nokkra einstaklinga og hefi ég eftir ættfróðum mönnum, að í manntalið vanti á annað hundrað einstaklinga. Þeirra á meðal er fjölskyldan og áar mínir sem settist að í Kýrholti í Viðvíkursveit í Skagafirði árið 1801, Einar Illugason frá Arnarhóli í Reykjavík, kona hans Guðrún Gunnlaugsdóttir frá Hróarsdal í Hegranesi og ellefu ára sonur þeirra Eyjólfur síðar bóndi í Saltvík á Kjalarnesi og víðar, síðast á Akranesi.

Upp úr þessu fer íbúum Íslands að fjölga nokkuð, voru taldir vera 56035 árið 1835 og 61603 árið 1845. Árið 1901 voru íbúar Íslands komnir upp í 78470, tíu árum síðar í 85183 og munu svo hafa skriðið upp yfir hundrað þúsund snemma á þriðja áratugnum en voru 108861 árið 1930. Þeir náðu svo 200000 árið 1968 og nú í gær 300000.

Ég held að það sé ljóst að langan tíma tekur að fjölga íslensku þjóðinni um næstu hundrað þúsund. Það hefur dregið mjög úr barnsfæðingum á síðustu 30 árum og mun draga enn frekar úr þeim á næstu áratugum. Því mun þróunin á Íslandi smám saman færast í þá átt að aðfluttir íbúar munu bera uppi hitann og þungann af fjölgun þjóðarinnar rétt eins og hefur verið að gerast í Evrópu.

Það eykur ekki á vonina um að þjóðin fjölgi sér sjálf án utanaðkomandi aðstoðar, þegar brúnaþungur Halldór Ásgrímsson mætir í dag á fæðingardeildina til að taka í hendina á foreldrum barns númer 300000 um leið og hann mun væntanlega gera sitt til að hræða líftóruna úr blessuðu barninu sem hefur ekkert til sakar unnið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli