þriðjudagur, janúar 03, 2006

3. janúar 2006 - Völva bloggsins

Eins og lesendur mínir hafa séð, hefi ég þegar birt annál ársins 2005. Því er nú komið að völvuspá fyrir árið 2006. Ég hefi starað í mína fínu kristalskúlu síðustu dagana og séð þar ýmislegt, en þetta þó helst:

Árið 2006 verður gjöfult ár fyrir marga bloggara, þó ekki alla. Það verða erfiðir dagar í lok janúar og byrjun febrúar vegna jólavísareikningsins. Þetta mun allt lagast í apríl með þrotlausum vöktum alla páskana. Ég sé fram á betri daga fjárhagslega á sumri komanda, aðallega vegna greiðslu orlofsfjár í maí og vaxtabóta í ágúst. Þá sé ég fyrir mér nýja fataskápa í stóra herberginu og hugsanlega einnig nýjan fataskáp í forstofunni á flísalagt gólfið. Ég get þó ekki séð hver ætlar að leggja flísarnar þegar búið verður að fjarlægja parketið.

Einhver fjölgun verður í stórfjölskyldunni á árinu, en á móti kemur eitt dauðsfall. Ég sé ekki að það verði meðal nánustu ættingja, en gæti verið meðal hóps annarra ættingja, nær en í fimmta ættlið. Að auki mun ég þurfa að mæta í þrjár aðrar jarðarfarir og eitt brúðkaup á árinu. Ég gæti þurft að mæta í eitt stórafmæli á árinu, en þó ekki víst. Heilsan verður að mestu leyti góð. Ég mun fá eina kvefpest, en enga slæma flensu. Þá mun ég glata rúmum tíu kílóum af þyngd minni vegna tilgangslausra labbitúra um Elliðaárdalinn.

Ég sé fyrir mér þrjár utanlandsferðir á árinu, ein í mars, önnur í júlí og loks hin þriðja þegar nær dregur hausti. Allar verða ferðir þessar fremur stuttar og til Evrópu. Þá verður farin ein ferð austur að Kárahnjúkum og önnur norður til Eyjafjarðar, jafnvel austur í Þingeyjasýslur. Þá verða farnar nokkrar stuttar ferðir um nágrannasveitafélög, jafnvel alla leið til Selfoss. Ég mun ekki skipta um bíl á árinu, en gæti þurft að skipta um olíu tvisvar og einu sinni um bremsuklossa á bílnum. Þá verður hann þveginn og bónaður nokkrum sinnum.

Ég verð ekki rekin úr stjórn Ættfræðifélagsins á árinu, en mun þurfa að hella þar á könnuna að minnsta kosti átta sinnum. Ég mun eignast fáar bækur tileinkaðar hugðarefninu, en þó einhverjar.

Veðrið verður eins og venjulega, umhleypingar, kuldi og víxlverkanir rigningar og snjóa fram á vorið, hlýrra með roki og rigningu yfir sumarið og loks aftur víxl snjóa og rigningar að hausti. Það gæti orðið eitt eldgos á Íslandi, en þó ekki víst. Skipt verður um borgarstjóra og stóran hluta borgarstjórnar, en ríkisstjórnin mun sitja eins lengi og henni er stætt, flestum til ama og leiðinda. Hún mun reyna að hlýða kalli forsætisráðherrans og herja á aldraða og öryrkja eins og Halldór boðaði á gamlárskvöld, en óvíst hvort henni takist það. Hér ætlaði ég að bæta við að biskupinn muni gera sig að fífli á árinu 2006, en sú spá hefur þegar ræst og óþarfi að segja frá því nú.

Af íþróttum óttast ég mest að heimsmethafinn sé hættur að berjast til sigurs og muni hætta þátttöku í kappakstri sökum aldurs á hausti komanda saddur íþróttadaga. Þá mun Halifaxhreppur gera mér þann óleik að komast upp um deild í vor og spila í langneðstu deild næsta haust við álíka óvinsældir og ríkisstjórnin.

Læt ég þetta duga af spádómum fyrir árið 2006, en óska hinum aldurshnigna heimsmethafa Michael Schumacher til hamingju með 37 ára afmælið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli