miðvikudagur, janúar 25, 2006

26. janúar 2006 - Ein illa þenkjandi

Um daginn, er Steingrímur Jóhann Sigfússon lenti útaf á flotta LandCruisernum sínum kom einhver púki upp í mér. Maðurinn hafði gefið sig út fyrir að aka á gamalli fasteign á hjólum, en var svo á flottum jeppa er hann ók útaf í Langadalnum. Ég heyrði svo á mál manna að þetta hefði verið LandCruiser 100 og trúði því eins og púkinn á fjósbitanum.

Nágrannar Steingríms voru mér ekki alveg sammála þótt þeir væru pólitískir andstæðingar sægreifans. Þetta hefði nú bara verið réttur og sléttur LandCruiser 90, sem einungis bláfátækir trillukarlar aka á. Þegar ég for svo að skoða myndirnar af flaki bílsins, kom í ljós að brettakantarnir sem voru með því fáa sem var heillegt reyndust ekki vera í samræmi við lúxusútgáfuna og varð ég því að éta fullyrðinguna ofan í mig.

Á miðvikudagsmorguninn glaðnaði aftur yfir mér. Daginn áður hafði Benz sportbíll af rándýrri gerð hafði orðið fyrir andvægi af krana sem kastast hafði af vörubílspalli og gjöreyðilagðist sportbíllinn, en bílstjórinn skrámaðist aðeins lítilsháttar, enda á gæðasportbíl. Nafn unga ökumannsins á sportbílnum vakti hinsvegar hjá mér grunsemdir. Sigfús Steingrímsson.

Ég fór beint í ættarskrárnar mínar og fann aðeins tvo unga menn með þessu nafni, einn 34 ára gamlan sem er ekki svo ungur lengur, og svo 21 árs gamlan son Steingríms Jóhanns Sigfússonar. Ekki var það til að bæta úr að drengurinn virtist kornungur af myndum að dæma.

Ég hafði samband við nágranna Steingríms fyrir norðan til að fullvissa mig um að þar væri sonurinn ljóslifandi kominn. Þau voru hinsvegar fljót að láta mig kyngja grunsemdum mínum á ný. Ég væri bara svona illa þenkjandi, því Steingrímur og fjölskylda væru strangheiðarleg þótt ýmislegt mætti setja út á stjórnmálaskoðanir þeirra.

Ég skammast mín oní tær.

----o----

Hetjurnar miklu í Halifaxhreppi burstuðu á þriðjudagskvöldið Burtviknu Albínóana (Burton Albion) á heimavelli hinna síðarnefndu með tveimur glæsilegum mörkum gegn afar ljótu marki heimaliðsins. Það er greinilegt að Burtviknu Albínóarnir eru eitthvað slappir þessa dagana því um daginn tókst þeim ekki að slá smáliðið Sameinaða Mannshesta (Manchester United) úr bikarkeppninni. Hetjurnar hugumstóru eru nú komnir í fjórða sæti í kvenfélagsdeildinni og hættulega nærri toppnum: Verða þær því að taka á honum stóra sínum til að halda sér í deildinni að ári í stað þess að lenda í langneðstu deild.


0 ummæli:







Skrifa ummæli