laugardagur, janúar 14, 2006

14. janúar 2006 - Eiturnöðrur?

Í gær bárust þær fregnir um allt landið og miðin, að Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason væru hættir störfum á DV. Mikið var það nú gott. En er það nóg?

Í fjölda ára hefur Eiríkur Jónsson fyrirsagnahöfundur DV og einn helsti boðberi siðleysisstefnu DV setið þar á stól sínum, og situr enn. Talstöðinni stjórnar nú fyrrverandi ritstjóri DV, Illugi Jökulsson sem er einn helsti hugmyndafræðingur siðlausu stefnunnar á blaðinu. Yfir batteríinu trónir svo Gunnar Smári Egilsson yfirritstjóri og dæmdur mannorðsmorðingi sem þó neitar því að hann sé yfirritstjóri, þrætir eins og sprúttsali og svarar engu og vísar á ritstjón DV.

Þvílíkur hópur.

Ég heyrði viðtal við Reyni Traustason í útvarpinu í gær þar sem hann talaði alltaf um mistök ritstjóra DV í fréttinni síðastliðinn þriðjudag og sem kostaði mannslíf. Þrátt fyrir hrifningu mína á heiðarleika og baráttu Reynis fyrir lítilmagann, get ég ekki litið á þessa frétt sem mistök og að ritstjórarnir hafi gengið of langt í þetta eina sinn. Þvert á móti hafa ritstjórarnir hvað eftir annað stigið á fingurna á þjóðinni og í hvert sinn sem þjóðin hefur æmt af sársauka hafa þeir svarað með því að ganga ennþá lengra. Því var forsíða DV síðastliðinn þriðjudag ásetningsbrot stjórnað af einbeittum brotavilja. Því á að refsa þessum mönnum.

Ég er hinsvegar ekki viss um að brottför og hugsanleg refsing Mikaels og Jónasar sé nóg. Sá sem stjórnar stefnunni á DV er Gunnar Smári Egilsson og hans hægri hönd og leiðbeinandi í mannorðsmorðum er Eiríkur Jónsson samanber viðtal við Gunnar Smára sem flutt var á Aðalstöðinni sálugu sumarið 1996. Illugi Jökulsson þótti mjög aðsópsmikill er hann var með pistla á Rás 1 og einnig um tíma á Stöð 2 skömmu eftir að hún byrjaði með morgunsjónvarp. Þar vóg hann á báðar hendur, en rétt eins og öðrum kjöftugum mönnum, þá fór svo að hann fletti ofan af ónefndum manni sem hafði verið sýknaður í Hæstarétti fyrir kynferðsbrot gegn dóttur sinni. Þetta varð til þess að þessi ónefndi maður varð að segja opinberri stöðu sinni lausri og flúði land. Þegar DV fór seinna á hausinn og endurreist aftur í stíl Gunnars og Eiríks, þótti sjálfsagt að slíkur afburðauppljóstrari yrði gerður að ritstjóra. Þótt Illugi sé nú löngu orðinn útvarpsstjóri á Talstöðinni, situr hann enn með refsidóma á bakinu fyrir meiðyrði eftir ritstjórnarferilinn á DV.

Þjóðfélagið hefur vart talað um annað síðustu þrjá dagana en Ísafjarðarmálið og æsifréttamennsku DV. Tveggja sólarhringa undirskriftasöfnun á netinu sló öll met og söfnuðust 32044 undirskriftir á þessum tíma. Þær hefðu sennilega orðið mun fleiri ef tölvukerfið hjá aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar hefði ekki hrunið vegna mikils álags eftir nokkra klukkutíma. Sjálf hefi ég heyrt í mörgum sem hafa lýst viðurstyggð sinni á skrifum DV, en ég hefi einnig heyrt í tveimur mönnum sem hafa stutt við ritstjórnarstefnu DV án þess að vera tengdir blaðinu. Annar þeirra mótmælti veitingu fálkaorðunnar til “kynvilllings” á spjallrásum (innherjum) vísis.is eftir að Þorvaldur Kristinsson hafði hlotið hana sumarið 2004. Svo langt gekk hann í hommahatrinu að rásarstjórnin varð að loka á hann. Hinum manninum þótti verst að missa af slúðrinu í DV (því hinu sama sem Jónas kallar sannleika).

Með þessum þungu orðum mínum vil ég taka skýrt fram að orðum mínum er ekki beint að öðrum blaðamönnum á Íslandi. Ég hefi kynnst mörgum ágætum blaða og fréttamönnum og langflestir vinna störf sín af kostgæfni, hógværð og tillitssemi við þá sem talað er við og fjallað um. Undantekningin er þó þessi:

Ritstjórn DV sem hafði þjóðina að fíflum, en jafnvel mestu fíflum getur sárnað og barið til baka og þá verður ekkert gefið eftir.


0 ummæli:Skrifa ummæli