miðvikudagur, janúar 18, 2006

19. janúar 2006 - Af rifbeinsbrotum og fleiru

Þegar ég heyrði af rifbeinsbrotasögu Steingríms J. Sigfússonar í Langadal á sunnudagskvöldið, datt mér í hug eitt sinn er ég fór með þýsku leiguskipi Eimskipafélagsins vestur á Ísafjörð fyrir rúmum tveimur áratugum, að lesta rækjugáma og fara með þá til Álaborgar.

Þrátt fyrir mjög slæmt veður á Ísafirði, var haldið áfram að lesta skipið eins og unnt var, hinn þýski stýrimaður stóð á dekki og stjórnaði lestuninni, en ég tengdi gámana og kom þeim í gang. Þetta gekk vel lengi vel, eða þar til komið var langt framá kvöld að vindhviða náði að feykja til gám sem var verið að hífa um borð og kom sveifla á hann. Lenti gámurinn með nokkru afli á stýrimanninum sem klemmdist á milli gámsins og annars gáms sem var fastur á lestarlúgunni. Manngreyið var auðvitað alveg miður sín eftir höggið og leið hræðilega illa, settist niður og kunni ekki að mæla, en var þó með fullri meðvitund.

Lögregla og sjúkralið voru kölluð til og manninum ekið með hraði upp á spítala og lagður þar inn og síðan var lestun skipsins lokið án frekari aðkomu stýrimannsins. Áður en farið var úr höfn á Ísafirði morguninn eftir kom lögreglan um borð með manninn og með þau skilaboð frá læknakandidatinum á vaktinni að sjúklingurinn væri viðbeinsbrotinn og þyrfti bara að vera í koju og hafa hægt um sig á útleiðinni. Eitthvað fannst áhöfninni þetta furðuleg ráðstöfun, ekki síst í ljósi þess að maðurinn var sárþjáður, en lét sér samt segjast og var síðan haldið úr höfn.

Eftir um það bil klukkustundar siglingu, var kallað í skipið frá Ísafjarðarradíó og þess óskað að skipið snéri við hið bráðasta og skilaði sjúklingnum aftur til Ísafjarðar. Hafði yfirlæknirinn á spítalanum farið að skoða röntgenmyndirnar af vesalings stýrimanninum eftir að hann mætti til vinnu um morguninn og fundið að flest eða öll rifbein öðru megin væru brotin og lunga fallið saman auk viðbeinsbrots og fleiri áverka, ekkert ósvipuð lýsing og nú heyrist af Steingrími.

Stýrimanninum var skilað í land og síðan héldum við áfram til Danmerkur. Tveimur vikum síðar losnaði karlkvölin af spítalanum og þá til þess eins að fara beint heim til Þýskalands í áframhaldandi veikindaleyfi og kom hann ekki um borð aftur. Nokkru síðar tók íslensk áhöfn við skipinu og var skipið síðan í eigu Eimskipafélagsins í mörg ár eftir þetta og reyndist það vel.

-----o-----

Mig langar til að kasta fram örlítilli spurningu til þessara örfáu lesenda minna sem enn hafa þá þolinmæði að nenna að lesa bloggið mitt. Spurningin er hvort þeir þekki til kvikmyndarinnar Transamerica sem fékk GoldenGlobe verðlaun um daginn og þá fyrir besta dramatíska leik í kvenhlutverki, en þau hlaut Felicity Huffman fyrir leik sinn sem hin transsexuella Stanley 'Bree' Osbourne.

Mig langar til að vita hvort og þá hvenær standi til að sýna umrædda kvikmynd á Íslandi, en ég hefi ekki farið í bíó síðan ég sá hina ágætu þýsku kvikmynd Goodbye Lenin í Háskólabíó haustið 2004. Kominn tími til að kíkja í bíó.

-----o-----

Þær slæmu fregnir voru svo að berast, að burtflognu Albínóarnir hafi tapað fyrir smáliðinu Sameinuðum Mannshestum á Old Trafford með fimm mörkum gegn engu. Hvernig fara þeir að þegar þeir mæta alvöru stórliði þriðjudaginn 24. janúar, sjálfum Halifaxhreppi í kvenfélagsdeildinni?


0 ummæli:







Skrifa ummæli