þriðjudagur, janúar 24, 2006

24. janúar 2006 - Færeyskir dagar í Ólafsvík

Á hverju ári undanfarin ár hafa Ólsarar haldið sína eigin þjóðhátíð til minningar um bestu menn bæjarfélagsins, Færeyinga. Það er vel, því sómi hefur verið að þeim, allt frá þeim tíma er þeir komu hingað til lands á vertíð og settust að í Ólafsvík sumir hverjir.

Einn kann þó að meta áhrif þeirra á bæjarlífið öðrum fremur, en það er Sturla Böðvarsson samgönguráðherra Færeyinga sem er fæddur og uppalinn í Ólafsvík, þótt hann hafi slysast í bæjarstjórastól í Stykkishólmi um tíma á fullorðinsaldri. Í krafti embættis síns hefur hann lagst gegn ýmsum nauðsynlegum úrbótum í samgöngumálum Íslendinga á sama tíma og hann hefur stutt vel og vandlega við samgöngumál Færeyinga. Þannig hefur hann lagt sín lóð á vogarskálarnar til að hindra lagningu Sundabrautar á stað sem nýtist Reykvíkingum best og nærsveitarfólki, svo ekki sé talað um gamla herflugvöllinn í Vatnsmýri og baráttu Sturlu fyrir áframhaldi hans.

Eins og sönnum Færeyjavini sæmir, vill hann að auki leggja rándýr jarðgöng sem munu seint borga sig, á milli tveggja fámennra kaupstaða og eyðileggja kyrrð friðsæls eyðifjarðar í leiðinni. Þá finnst honum gaman að sprengja dínamit eins og byggingatæknifræðingur gerir best og er Hornfirðingum enn í fersku minni snilldarlegir taktar hans á því sviði.

Íslenskum farmönnum er kannski helst minnistætt er Sturla tók á móti nýju skipi Samskipa fyrir hönd færeysku þjóðarinnar í janúar 2005. Með því lagði hann grafstein yfir íslenska farmennsku sem hafði lengi verið á fallandi fæti vegna afskiptaleysis íslenskra stjórnvalda, þá sérstaklega yfirvöldum samgöngumála á Íslandi. Til að staðfesta þessa stefnu Sturlu Böðvarssonar hefur Eimskip nú ákveðið að færa skiparekstur sinn til Færeyja og ríkir nú vafalaust fögnuður í ráðuneyti Sturlu Böðvarssonar.

Ég legg til að Sturla Böðvarsson verði gerður að heiðurborgara í Færeyjum.

Í frétt Morgunblaðsins af þessari mestu niðurlægingu íslenskrar farmannastéttar var birt mynd af Lagarfossi sem sigldi milli Íslands og Evrópu um skeið með áhöfn frá Filipseyjum.

-----o-----

Af íslenskri tungu.

Vafalaust hefur málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins rekið í rogastans er Þóra Tómasdóttir kynnti atriði á eftirfarandi hátt: “Helga Vala Helgadóttir er sest hjá Jónatani Garðarssyni”.
Það er þá ekki í fyrsta sinn, því einhverju sinni lýsti hún “ógisslega” góðum tónleikum á Nasa.

Er kannski styttra í útrýmingu tungunnar en hundrað ár, þegar fyrirmyndirnar standa sig ekki betur en þetta, auk þess sem leikkona sem klifar í sífellu á orðunum "ógisslega" og "skilurru", fær tvenn verðlaun fyrir góða sjónvarpsþáttagerð?


0 ummæli:







Skrifa ummæli