fimmtudagur, janúar 05, 2006

5. janúar 2006 - Enn af Konráð Alfreðssyni

Fyrir viku sá Konráð Alfreðsson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar ástæðu til að lýsa yfir áhyggjum sínum vegna grunsemda sinna þess efnis að aðkomumaðurinn Guðmundur Kristjánsson ætlaði að flytja landvinnslu Brims í burtu frá Akureyri. Ég gat með góðri samvisku deilt þessum áhyggjum með Konráð, enda illt í efni þegar einustu atvinnutækifærin hverfa á braut. Daginn eftir kom í ljós að ótti okkar reyndist ástæðulaus og Guðmundur hafði ekki í huga að flytja landvinnslu Brims á brott.

Óttinn við brottflutning landvinnslunnar reyndist þó byggður á raunhæfum ástæðum. Það var samt ekki Guðmundur Kristjánsson sem vildi hverfa á brott með fiskinn, heldur fyrirtæki sjálfra Akureyringanna, Samherji sem hefur nú ákveðið að flytja hluta landvinnslu sinnar úr landi. Þá skyndilega heyrist ekki múkk í formanni Sjómannafélags Eyjafjarðar. Ég mun hinsvegar halda áfram að hafa áhyggjur af atvinnu verkafólks við Eyjafjörð og þykir þetta vera hið versta mál. Um þögn Konráðs Alfreðssonar vil ég bara segja eitt: Sveiattan.

----o----

Seint í gærkvöldi bárust mér þær fréttir að hryðjuverkamaðurinn Ariel Sharon lægi alvarlega sjúkur og hugsanlega á banabeði. Ég ætla ekki að biðja fyrir honum. Hinsvegar ætla ég að biðja fyrir andstæðu hans, friði í heiminum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli