miðvikudagur, nóvember 30, 2011

30. nóvember 2011 - Embætti sérstaks saksóknara

Enn einu sinni hefur sérstakur saksóknari slegið til gegn útrásarvíkingum sem svo hafa verið kallaðir, framkvæmt húsleit hjá einhverjum og haldlagt gögn auk sem sem einhverjir hafa verið handteknir og teknir til yfirheyrslu.

Það eru komin full þrjú ár frá hruninu og embætti sérstaks saksóknara hefur verið til næstum allan þennan tíma, var sett á laggirnar í forsætisráðherratíð Geirs Haarde og Ólafur Þór Hauksson skipaður í embætti sérstaks saksóknara fyrir lok þeirra ríkisstjórnar. Síðan þá hefur ekkert skeð af viti, enginn þeirra sem rændu þjóðarauðnum hafa verið ákærðir né dæmdir, ENGINN! Til þess að friða almenning tekur hann einn og tvo, stingur þeim inn í tvo til þrjá daga og sleppir síðan lausum og svo skeður ekkert meira fyrr en almenningur fer að ókyrrast að nýju og þá er einn eða tveir teknir í yfirheyrslur og jafnvel látnir sofa í varðhaldi eina eða tvær nætur og síðan sleppt. Svo skeður ekkert meir.

Mál þeirra ræningja sem rændu þjóðina eru að fyrnast, engin ákæra hefur verið gefin út og enginn hefur verið dæmdur. Meðan á öllu þessu stendur minnkar traust mitt til sérstaks saksóknara. Það þýðir ekki lengur að kalla einn og einn til yfirheyrslu og láta sofa í fangaklefa yfir nótt. Það þarf aðgerðir og það þarf réttarhöld gegn gerendum hrunsins. Vonandi er hann ekki að svæfa málin með aðgerðarleysi sínu.

Því miður þarf sérstakur saksóknari að taka til hendinni og ljúka málum, ekki bara einu eða tveimur, áður en ég öðlast traust til hans á ný.

sunnudagur, nóvember 27, 2011

28. nóvember 2011 - Eru Íslendingar aumingjar?

Er nema von að ég spyrji.  Nú er ekkert lengur hægt að gera nema til komi erlent fjármagn frá einhverjum vafasömum pappírum til að halda uppi atvinnu í landinu. Um daginn fór Ögmundur Jónasson eftir lögum og hafnaði boði einhvers Kínverja um að kaupa 2-3% af Íslandi og það varð allt vitlaust. Ég held að það sé þá í lófa lagið fyrir Alþingi að breyta lögunum ef viljinn er raunverulega fyrir hendi að selja landið í pörtum til erlendra fjárfesta. Það má ljóst vera að meirihluti Alþingis er fyrir landsölunni þrátt fyrir viðvörunarorð Halldórs Laxness í Atómstöðinni. Meirihluti Samfylkingar vill selja, sennilega einnig Sjálfstæðisflokkurinn og örugglega Framsóknarflokkurinn. Ekki þarf að óttast að forsetaræfillinn fari gegn vilja Alþingis eftir að hann hefur margsinnis lýst yfir áhuga sínum á kínversku fjármagni, enda er um að ræða fjárfesti af því tagi sem hann mærði svo mjög áður en Ísland hafnaði á ruslahaug fjármálakerfisins eftir ævintýralegar fjárfestingar innlendra fjárfesta, svonefndra útrásarvíkinga.

En af hverju grunar mig að Íslendingar séu aumingjar? Á árum áður þurftu Íslendingar ekki mikið á erlendu fjármagni að halda. Þeir unnu sig frá því að vera fátækasta þjóð Evrópu til þess að verða ein sú ríkasta. Þeir byggðu eigin stóriðju sem var Hitaveita Reykjavíkur af eigin verðleikum og án utanaðkomandi fjármagns. Þeir byggðu upp tæknivæddan fiskiskipaflota og þegar raunverulegir erfiðleikar blöstu við þjóðinni var málinu reddað! Vissulega fengu Íslendingar góða hjálp frá nágrannaþjóðunum eftir gosið í Vestmannaeyjum 1973, en uppbyggingin var alfarið í höndum Íslendinga sjálfra og þá helst Eyjamanna. Það mátti vissulega greina ákveðinn aumingjadóm í Íslendingum er þeir fengu Marshall-aðstoð eftir seinni heimsstyrjöld þrátt fyrir stórfelldan stríðsgróða þar sem Ísland auðgaðist mjög á fiskútflutningi til Englands í stríðinu auk vinnu fyrir bresku og bandarísku setuliðin á Íslandi.

Eftir hrun og fjármagnsflótta útrásarræningjanna haustið 2008 var eins og allur vindur væri úr þjóðinni. Ekkert var hægt að gera lengur nema með hjálp utanaðkomandi fjármagns. Þó var staðan langt í frá jafnslæm og var 1967-1969 og meirihluti fólksins í landinu hafði það betra en á árunum eftir 1990 þó vissulega séu þar undantekningar á.

Er ekki kominn tími til að hætta þessu væli um að allt sé að fara til fjandans? Eftir hörmungarnar 1783 -1784 var vissulega ástæða til að væla þegar fólk hrundi niður úr hungri og kulda, en sú staða er ekki lengur fyrir hendi. Ef Íslendingar hætta ekki þessu væli fá þeir fljótlega þann stimpil á sig að þeir séu aumingjar. Viljum við það?

laugardagur, nóvember 26, 2011

26. nóvember 2011 – Endurgerð gamalla húsa

Fyrir nokkru kom sú hugmynd fram hjá blaðafulltrúa Icelandair að byggja repliku af gamalli dómkirkju í Skálholti, væntanlega þeirri sem var í Skálholti á undan þeirri sem Brynjólfur biskup lét reisa árið 1650. Þegar er risin að nokkru Þorláksbúð sem Árni Johnsen og félagar standa fyrir við hlið núverandi Skálholtskirkju. Ef allir sem vilja reisa replikur af gömlum kofum sem voru í Skálholti í gegnum aldirnar mun brátt hætta að sjást í núverandi kirkju fyrir öllum eftirlíkingunum af gömlum kofum umhverfis hana. Þá má ekki gleyma að Baggalútsmenn vilja eitt stykki miðaldaflugvöll að Skálholti, en það strandar á því að þegar er einn miðaldaflugvöllur í miðborg Reykjavíkur sem menn reyna að ríghalda í þótt hann sé best geymdur annars staðar.

Í Reykjavík eru annars nokkur góð dæmi um eftirlíkingar gamalla húsa sem stóðu þar sem nýju húsin eru, hornið á Austurstræti og Lækjargötu og hluti Aðalstrætis. Einhverjir vildu kannski bæta húsunum við Laugaveg 4-6 á þennan lista, en þau hús eru sennilega dýrustu hús Reykjavíkur miðað við stærð og gagnið sem af þeim er.

Þetta er kannski framtíðin, bygging nýgamalla húsa. Ég sé í anda hús Eðvarðs Sigurðssonar formanns verkamannafélagsins Dagsbrúnar sem stóð við Suðurgötu og fjöldi torfbæja sem má gjarnan reisa í Reykjavík í stað steinkumbaldanna. Það væri nú ekki amalegt að hafa eins og einn torfbæ tómthúsmanns við Laugaveginn svo túrhestarnir geti virt fyrir sér húsfreyju af gamla skólanum tæma næturgagnið á hauginn á bakvið hús, kynnst reykmettuðu hlóðareldhúsinu og að sjálfsögðu yrðu ein eða tvær beljur látnar hita upp baðstofuna með nærveru sinni í stað nútíma hitaveitu. Að sjálfsögðu er hægt að gera meira, reisa eins og eitt braggahverfi í Reykjavík í virðingarskyni við minningarnar.

Húsið þar sem ég fæddist í Reykjavík var rifið í kringum 1970 og síðar byggður banki á lóðinni. Nú eru fleiri bankar komnir á lóðina meira og minna gjaldþrota. Er ekki kominn tími til að rífa eitthvað af þessum bönkum og byggja repliku af fæðingarstaðnum mínum í staðinn? Einnig get ég vel hugsað mér að ættaróðalið á Arnarhóli verði endurreist í stað styttunnar af einhverjum Ingólfi sem sagður var hafa verið fyrsti landnámsmaðurinn (Ég er víst af Arnarhólsætt ef skoðaðar eru gamlar Reykjavíkurættir).

Eða eigum við ekki bara að hætta að byggja eftirlíkingar af löngu horfnum húsum sem flest hver voru best geymd í minningunni og sum dæmi um ömurlega fátækt íslensku þjóðarinnar?

Þetta voru svona vangaveltur á laugardagskvöldi!

föstudagur, nóvember 25, 2011

25. nóvember 2011 - Um sölu á landi

Nei, nei. Ég er ekkert á leið úr Samfylkingunni. Ég er henni sammála í flestum málum og með félagsaðild minni og þátttöku í stefnumótun Samfylkingarinnar hefi ég skuldbundið mig til að vinna stefnumálum Samfylkingarinnar framgang þar á meðal samvinnu Evrópuþjóða og baráttunni gegn þjóðrembu og rasisma með mannréttindi að leiðarljósi. Um leið hefi ég sem friðarsinni ávallt greitt atkvæði gegn þátttöku í hernaðarbandalögum þótt það hafi verið gegn vilja flokksforystunnar, en um leið hefi ég stutt kröfurnar um betra flokksskipulag í anda sænsku jafnaðarstefnunnar.

Í dag kom upp atriði þar sem ég get ekki verið sammála forystu Samfylkingarinnar. Þar er ég að tala um söluna á Grímsstöðum á Fjöllum til kínversks fjárfestis/fyrirtækis. Þar gerði Ögmundur það eina rétta í stöðunni og rétt eins og hann benti á, þá er hann bundinn af lögunum og öll frávik frá lögunum eru lögbrot. Þá skiptir engu máli hvort fólk vill selja einhverjum Kínverja Grímsstaði eður ei. Ögmundur hefur sjálfur rökstutt ákvörðun sína á þann hátt að enginn efi er á niðurstöðunni. Ef alþingismenn vilja breyta þessari niðurstöðu er einfaldast að breyta lögunum.

Eins og ég hefi nefnt áður er ég andvíg rasisma og þjóðrembu. Ef umræddur Kínverji vill setjast að á Grímsstöðum á Fjöllum og byggja þar upp hótel og ferðaþjónustu skal ég verða fyrst allra að fagna slíku. Hann mætti jafnvel byggja upp ferðaþjónustu á miklu minna landi án þess að ég færi að kvarta.

Hinsvegar veit ég ekki hvað maðurinn ætlast fyrir í reynd. Hafði hann hugsað sér að byggja upp kínverska ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum eða ætlaði hann að færa landið áfram í hendur kínverskum yfirvöldum eða er hann leppur þeirra? Ekki veit ég það, en fagna hverri þeirri manneskju sem vill flytja til Íslands og búa hér og starfa á heiðarlegan hátt.

Einu sinni voru Íslendingar stærstir og mestir allra og landið var „stórasta land í heimi“. Það var á þeim tíma sem Íslendingar óðu yfir aðrar þjóðir á skítugum skónum á lánuðu fjármagni. Með hruninu urðu þeir einhver vesælasta þjóð í heimi og grátbáðu aðrar þjóðir um fjármagn til að hægt væri að rétta af íslenskt þjóðfélag. Hvar er nú íslenskt frumkvæði og áræði? Skyndilega er ekkert hægt að gera á landi hér nema til komi erlent fjármagn og þá helst kínverskt!

Er ekki kominn tími til að Íslendingar hætti að væla utan í erlendum glæpa- og auðmönnum um að fá einhverja mola sem hrynja af allsnægtaborðum þeirra og fari að horfa í eiginn barm í leit að lausnum á vandræðum íslensku þjóðarinnar?

miðvikudagur, nóvember 23, 2011

23. nóvember 2011 - Rúblur


Ég álpaðist til að horfa á Kastljósið á Rúffinu í kvöld og sá þá viðtal við Ingimar Hauk Ingimarsson arkitekt sem tók þátt í að stofna bjórverksmiðju austur í Rússlandi og sem nú heldur því fram í sögu sinni að Björgólfsfeðgar hafi stolið verksmiðjunni af sér. Mér hefur enn ekki unnist tími til að lesa nýútkomna söguna og get því ekki tekið afstöðu til staðhæfinga hans að sinni. Læt öðrum um slíkt þótt ýmsar grunsemdir hafi vaknað með mér við áhorf Kastljóssins.

Annað vakti þó athygli mína við að horfa á Kastljósið en það var merki framleiðslunnar sem sýnt var í mynd, þ.e. ölflöskur merktar Boukarev (á rússnesku). Ég kannaðist strax við merkið á ölflöskunum, ekki fyrir það að hafa neytt þessa eðaldrykkjar í miklum mæli heldur sökum þess að ég fann einhverju sinni lítið grænt hulstur í póstkassanum heima hjá mér og var það merkt umræddri ölframleiðslu austur í Rússíá. Þetta var fáeinum dögum eftir að  íslenska efnahagskerfið hrundi og ég hafði séð ástæðu til að blogga um óðaverðbólgu.

Sá sem setti umrætt hulstur í póstkassann minn hefur enn ekki gefið sig fram og því má segja að málið sé enn óupplýst, en hulstrið er vel geymt í fjárhirslum mínum ásamt rúblunum.

http://velstyran.blogspot.com/2008/10/16-oktber-2008-rblur.html

http://velstyran.blogspot.com/2008/10/13-oktber-2008-hugleiingar-um-averblgu.html

sunnudagur, nóvember 13, 2011

13. nóvember 2011 - Landsbjörg

Ég fékk góða heimsókn um daginn. Sænsk vinkona mín var á ferð á Íslandi og er við ræddum um hálendisferðir tók ég fyrir allt slíkt, því á Íslandi fer maður ekki til fjalla í svartasta skammdeginu, en ég skal gjarnan bjóða henni með til Landmannalauga og Laugaveginn þegar hún kemur aftur til Íslands í júlí eða ágúst á næsta ári.

Nú má búast við að umræður hefjist einu sinni enn um tryggingar ferðamanna fyrir að láta leita að sér eftir að sænskur maður fórst á Sólheimajökli eftir að hafa náð að hringja í neyðarlínuna á örlagastundu.

Ég gat ekki annað en fylgst með björgunaraðgerðum í fréttum, fyrst á Fimmvörðuhálsi, síðar á Sólheimajökli, hefi sjálf gengið Fimmvörðuhálsinn og minnist vel minningarskjalda um fólk sem hefur farist þar uppi og langar ekkert til að lenda í þeim aðstæðum að þurfa að leita eftir aðstoð við slíkar aðstæður. Sjálf fer ég ekki lengur á fjöll án þess að vera með GPS tæki meðferðis og áttavita til vara. Ég fer ekki einu sinni á Esjuna án þess að hafa meðferðis nauðsynlegan útivistarbúnað. Um leið viðurkenni ég fúslega að ýmislegt getur farið úrskeiðis á fjöllum og því á það fólk sem hefur farið sér að voða á fjöllum alla mína samúð. Því settist að mér slæmur ótti um örlög piltsins unga meðan á leitinni stóð.

Það er ekki hægt annað en að dást að því hvernig staðið var að leitinni að unga piltinum. Hann tilkynnir að hann sé í hættu á jökli og hefði farið upp nærri Skógum. Það vita allir sem hafa gengið á Fimmvörðuháls að sú leið á jökul er upp frá Skógum og því eyða björgunarsveitir næstu 18 tímunum í að leita á Fimmvörðuhálsi, Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli sínhvoru megin við Fimmvörðuhálsinn. Um leið er kannað hver maðurinn er, hvernig hann komst austur, jafnvel auglýst í útvarpi eftir einhverjum sem hefði getað keyrt hann austur og skipuleggjendur leitarinnar komast að því innan 18 tíma að hann hefur verið á bílaleigubíl, farið sjálfur austur og að bíllinn er við rætur Sólheimajökuls, semsagt á röngum stað miðað við að pilturinn sagðist hafa farið upp nærri Skógum. Eftir það hefst leit á nýjum stað, í stað hájökulsins þarf að leita í hinum sprungna Sólheimajökli þar sem pilturinn finnst látinn í grunnri jökulsprungu eftir tvo og hálfan sólarhring frá því leitin hófst.

Þótt árangurinn hafi ekki farið að vonum við þessa viðamiklu leit þar sem 500 manns úr björgunarsveitum af öllu landinu tóku þátt, er ekki hægt annað en að dást að þessu mikla þrekvirki björgunarsveitanna sem og skipulagningu leitarinnar. Að sjálfsögðu er ég stolt yfir því fólki sem tók þátt, þar á meðal einni vinkonu minni sem var nýlega komin af sjúkrahúsi og var því notuð sem bílstjóri enda ófær um fjallgöngur eftir erfiða sjúkrahúslegu. Um leið er ég ekki reiðubúin að krefjast þess að ferðamenn greiði einskonar tryggingu fyrir að fá að halda til fjalla, en spurningin er hvort ekki sé ástæða til að kynna ferðamönnum betur þær hættur sem felast í ferðalögum á hálendi Íslands að vetri til.

Ég er léleg þegar kemur að því að hrósa Íslendingum fyrir eitt né neitt. Það gildir þó ekki um björgunarsveitir Landsbjargar. Þær hafa sýnt af sér svo fórnfúst starf og frábæra baráttu fyrir lífi og heilsu fólks og eigna þess að undrum sætir, ekki aðeins á Íslandi, heldur um víða veröld. Vinkona mín sem var nýlega komin heim eftir sársaukafulla aðgerð á sjúkrahúsi en gaf sér samt tíma til að fara í björgunarleiðangur er gott dæmi um slíkt baráttufólk.

Um leið og ég vil þakka björgunarsveitarfólkinu fyrir verðskuldaða baráttu þeirra fyrir lífi manns sem ekki reyndist hægt að bjarga, vil ég senda aðstandendum hans samúðarkveðjur mínar.   

laugardagur, nóvember 12, 2011

12. nóvember 2011 – Enn um Landspítala við Hringbraut

Ég vil taka fram í byrjun að ég hefi ekkert á móti nýjum Landspítala, en hefi verið ákaflega gagnrýnin á væntanlega staðsetningu hans í hálfgerðu úthverfi frá fólkinu í landinu, þ.e. við Hringbraut. Ég vil sjá spítalann annað hvort nærri krossgötum og þá nærri Fossvogi/Mjódd, en í öðru lagi tvö sjúkrahús nærri útmörkum höfuðborgarsvæðisins, t.d. í Mosfellssveit og Hafnarfirði. En hvað um það, einn góður væri sá að byggja við Borgarspítalann sem er nálægt krossgötunum.

Þegar Síminn var seldur var því lofað að peningarnir fyrir söluna yrðu notaðir til þess að byggja nýjan spítala. Nýjustu kostnaðaráætlanir um byggingu spítalans segja að hann muni kosta minnst 40 milljarða, en þá er einungis átt við steypuklumpana með tilheyrandi veitulögnum, þ.e. rafmagni, vatni, hita, frárennsli og netsambandi. Nú er það ljóst að þessir peningar eru ekki til lengur. Ekki veit ég hvort eitthvað kom inn af peningunum sem áttu að koma inn fyrir söluna á Símanum eða hvort þeim hafi verið stolið af útrásarræningjunum, eins og raunin varð með önnur ríkisfyrirtæki sem voru færð vildarvinum þáverandi ríkisstjórna á silfurfati. Því er ljóst að til að fjármagna steypuklumpinn þarf að fá peninga að láni.

Einhver norskur sérfræðingur sem var kallaður til starfa af þeim sem vilja byggja spítalann við Hringbraut komst að því að flutningur Landspítala á einn stað spari ríkissjóði 2,6 milljarða króna á ári. Ég er ekki fær um að meta hvort þessi upphæð sé rétt og verð því að taka hana trúanlega. Um leið spyr ég sjálfa mig að því hversu mikið þarf að greiða í vexti af 40 milljörðum. Ætli það verði undir þremur milljörðum? Ég efast um það og sennilega verða milljarðarnir nær fjórum milljörðum á ári. Þessu til viðbótar koma umferðarhnútarnir sem þarf að leysa, innréttingar og tæki svo að Landspítalinn geti orðið að fyrirmyndarvinnustað við Hringbraut.

Miðað við að sparnaðurinn verði einungis 2,6 milljarðar á ári samkvæmt Norðmanninum sem var pantaður af þeim sem vilja byggja nýjan Landspítala við Hringbraut held ég að betur verði heima setið en af stað farið.

Því segi ég, byggjum nýjan spítala í Fossvogi, byggjum hann í áföngum og á endanum verður kominn fyrirmyndarspítali á einum stað.

föstudagur, nóvember 04, 2011

4. nóvember 2011 - Reiðhjól!

Þessa dagana býr hjá mér sænsk vinkona mín sem er á ráðstefnu í Reykjavík. Þar sem hún er ekki með bílpróf hefi ég keyrt hana þangað sem hún þarf að fara. þar á meðal keyrt hana og sótt á ráðstefnuna sem er að hluta til í Háskólanum, en að hluta til á Hótel Sögu (hvað sem hún heitir á þessum síðustu og verstu tímum).

Í morgun þurfti ég að mæta á vaktina mína og því þurfti ég að fara með vinkonu mína snemma á ráðstefnuna áður en ég mætti til vinnu minnar og fórum við því að heiman klukkan 07.15 svo ég næði því að fara á löglegum hraða úr Árbænum í vesturbæinn og aftur til baka fyrir vinnu. Það var óvenju dimmt á leiðinni, myrkur og úðarigning úti, en morgunumferðin vart komin í gang.

Þegar við beygðum af Suðurgötunni og inn á „Guðbrandsgötu“ að Hótel Sögu hafði ég næstum rekist á svarta þúst sem stefndi beint á mig á öfugum vegarhelming. Ég ók varlega að venju og tókst því léttilega að sveigja frá þústinni sem reyndist vera stúlka á ljóslausu reiðhjóli á leið að háskólanum, enda er mér illa við að keyra yfir lítt sýnilegar hindranir auk þess sem eðalvagninn minn gæti skemmst við að lenda á reiðhjólinu.

Það má vel vera að ungir háskólanemendur haldi að ég sjái þá jafnvel og þeir sjá mig á uppljómuðum eðalvagni, en það er samt engin skynsemi í því fólgin að þvælast um á ljóslausum reiðhjólum á öfugum vegarhelmingi í skammdeginu í Reykjavík. Ekki heldur fyrir unga háskólanemendur sem eru uppfullir af visku og þykjast vita öðrum betur á flestum öðrum sviðum.