sunnudagur, nóvember 27, 2011

28. nóvember 2011 - Eru Íslendingar aumingjar?

Er nema von að ég spyrji.  Nú er ekkert lengur hægt að gera nema til komi erlent fjármagn frá einhverjum vafasömum pappírum til að halda uppi atvinnu í landinu. Um daginn fór Ögmundur Jónasson eftir lögum og hafnaði boði einhvers Kínverja um að kaupa 2-3% af Íslandi og það varð allt vitlaust. Ég held að það sé þá í lófa lagið fyrir Alþingi að breyta lögunum ef viljinn er raunverulega fyrir hendi að selja landið í pörtum til erlendra fjárfesta. Það má ljóst vera að meirihluti Alþingis er fyrir landsölunni þrátt fyrir viðvörunarorð Halldórs Laxness í Atómstöðinni. Meirihluti Samfylkingar vill selja, sennilega einnig Sjálfstæðisflokkurinn og örugglega Framsóknarflokkurinn. Ekki þarf að óttast að forsetaræfillinn fari gegn vilja Alþingis eftir að hann hefur margsinnis lýst yfir áhuga sínum á kínversku fjármagni, enda er um að ræða fjárfesti af því tagi sem hann mærði svo mjög áður en Ísland hafnaði á ruslahaug fjármálakerfisins eftir ævintýralegar fjárfestingar innlendra fjárfesta, svonefndra útrásarvíkinga.

En af hverju grunar mig að Íslendingar séu aumingjar? Á árum áður þurftu Íslendingar ekki mikið á erlendu fjármagni að halda. Þeir unnu sig frá því að vera fátækasta þjóð Evrópu til þess að verða ein sú ríkasta. Þeir byggðu eigin stóriðju sem var Hitaveita Reykjavíkur af eigin verðleikum og án utanaðkomandi fjármagns. Þeir byggðu upp tæknivæddan fiskiskipaflota og þegar raunverulegir erfiðleikar blöstu við þjóðinni var málinu reddað! Vissulega fengu Íslendingar góða hjálp frá nágrannaþjóðunum eftir gosið í Vestmannaeyjum 1973, en uppbyggingin var alfarið í höndum Íslendinga sjálfra og þá helst Eyjamanna. Það mátti vissulega greina ákveðinn aumingjadóm í Íslendingum er þeir fengu Marshall-aðstoð eftir seinni heimsstyrjöld þrátt fyrir stórfelldan stríðsgróða þar sem Ísland auðgaðist mjög á fiskútflutningi til Englands í stríðinu auk vinnu fyrir bresku og bandarísku setuliðin á Íslandi.

Eftir hrun og fjármagnsflótta útrásarræningjanna haustið 2008 var eins og allur vindur væri úr þjóðinni. Ekkert var hægt að gera lengur nema með hjálp utanaðkomandi fjármagns. Þó var staðan langt í frá jafnslæm og var 1967-1969 og meirihluti fólksins í landinu hafði það betra en á árunum eftir 1990 þó vissulega séu þar undantekningar á.

Er ekki kominn tími til að hætta þessu væli um að allt sé að fara til fjandans? Eftir hörmungarnar 1783 -1784 var vissulega ástæða til að væla þegar fólk hrundi niður úr hungri og kulda, en sú staða er ekki lengur fyrir hendi. Ef Íslendingar hætta ekki þessu væli fá þeir fljótlega þann stimpil á sig að þeir séu aumingjar. Viljum við það?


0 ummæli:







Skrifa ummæli