laugardagur, nóvember 12, 2011

12. nóvember 2011 – Enn um Landspítala við Hringbraut

Ég vil taka fram í byrjun að ég hefi ekkert á móti nýjum Landspítala, en hefi verið ákaflega gagnrýnin á væntanlega staðsetningu hans í hálfgerðu úthverfi frá fólkinu í landinu, þ.e. við Hringbraut. Ég vil sjá spítalann annað hvort nærri krossgötum og þá nærri Fossvogi/Mjódd, en í öðru lagi tvö sjúkrahús nærri útmörkum höfuðborgarsvæðisins, t.d. í Mosfellssveit og Hafnarfirði. En hvað um það, einn góður væri sá að byggja við Borgarspítalann sem er nálægt krossgötunum.

Þegar Síminn var seldur var því lofað að peningarnir fyrir söluna yrðu notaðir til þess að byggja nýjan spítala. Nýjustu kostnaðaráætlanir um byggingu spítalans segja að hann muni kosta minnst 40 milljarða, en þá er einungis átt við steypuklumpana með tilheyrandi veitulögnum, þ.e. rafmagni, vatni, hita, frárennsli og netsambandi. Nú er það ljóst að þessir peningar eru ekki til lengur. Ekki veit ég hvort eitthvað kom inn af peningunum sem áttu að koma inn fyrir söluna á Símanum eða hvort þeim hafi verið stolið af útrásarræningjunum, eins og raunin varð með önnur ríkisfyrirtæki sem voru færð vildarvinum þáverandi ríkisstjórna á silfurfati. Því er ljóst að til að fjármagna steypuklumpinn þarf að fá peninga að láni.

Einhver norskur sérfræðingur sem var kallaður til starfa af þeim sem vilja byggja spítalann við Hringbraut komst að því að flutningur Landspítala á einn stað spari ríkissjóði 2,6 milljarða króna á ári. Ég er ekki fær um að meta hvort þessi upphæð sé rétt og verð því að taka hana trúanlega. Um leið spyr ég sjálfa mig að því hversu mikið þarf að greiða í vexti af 40 milljörðum. Ætli það verði undir þremur milljörðum? Ég efast um það og sennilega verða milljarðarnir nær fjórum milljörðum á ári. Þessu til viðbótar koma umferðarhnútarnir sem þarf að leysa, innréttingar og tæki svo að Landspítalinn geti orðið að fyrirmyndarvinnustað við Hringbraut.

Miðað við að sparnaðurinn verði einungis 2,6 milljarðar á ári samkvæmt Norðmanninum sem var pantaður af þeim sem vilja byggja nýjan Landspítala við Hringbraut held ég að betur verði heima setið en af stað farið.

Því segi ég, byggjum nýjan spítala í Fossvogi, byggjum hann í áföngum og á endanum verður kominn fyrirmyndarspítali á einum stað.


0 ummæli:







Skrifa ummæli