sunnudagur, nóvember 13, 2011

13. nóvember 2011 - Landsbjörg

Ég fékk góða heimsókn um daginn. Sænsk vinkona mín var á ferð á Íslandi og er við ræddum um hálendisferðir tók ég fyrir allt slíkt, því á Íslandi fer maður ekki til fjalla í svartasta skammdeginu, en ég skal gjarnan bjóða henni með til Landmannalauga og Laugaveginn þegar hún kemur aftur til Íslands í júlí eða ágúst á næsta ári.

Nú má búast við að umræður hefjist einu sinni enn um tryggingar ferðamanna fyrir að láta leita að sér eftir að sænskur maður fórst á Sólheimajökli eftir að hafa náð að hringja í neyðarlínuna á örlagastundu.

Ég gat ekki annað en fylgst með björgunaraðgerðum í fréttum, fyrst á Fimmvörðuhálsi, síðar á Sólheimajökli, hefi sjálf gengið Fimmvörðuhálsinn og minnist vel minningarskjalda um fólk sem hefur farist þar uppi og langar ekkert til að lenda í þeim aðstæðum að þurfa að leita eftir aðstoð við slíkar aðstæður. Sjálf fer ég ekki lengur á fjöll án þess að vera með GPS tæki meðferðis og áttavita til vara. Ég fer ekki einu sinni á Esjuna án þess að hafa meðferðis nauðsynlegan útivistarbúnað. Um leið viðurkenni ég fúslega að ýmislegt getur farið úrskeiðis á fjöllum og því á það fólk sem hefur farið sér að voða á fjöllum alla mína samúð. Því settist að mér slæmur ótti um örlög piltsins unga meðan á leitinni stóð.

Það er ekki hægt annað en að dást að því hvernig staðið var að leitinni að unga piltinum. Hann tilkynnir að hann sé í hættu á jökli og hefði farið upp nærri Skógum. Það vita allir sem hafa gengið á Fimmvörðuháls að sú leið á jökul er upp frá Skógum og því eyða björgunarsveitir næstu 18 tímunum í að leita á Fimmvörðuhálsi, Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli sínhvoru megin við Fimmvörðuhálsinn. Um leið er kannað hver maðurinn er, hvernig hann komst austur, jafnvel auglýst í útvarpi eftir einhverjum sem hefði getað keyrt hann austur og skipuleggjendur leitarinnar komast að því innan 18 tíma að hann hefur verið á bílaleigubíl, farið sjálfur austur og að bíllinn er við rætur Sólheimajökuls, semsagt á röngum stað miðað við að pilturinn sagðist hafa farið upp nærri Skógum. Eftir það hefst leit á nýjum stað, í stað hájökulsins þarf að leita í hinum sprungna Sólheimajökli þar sem pilturinn finnst látinn í grunnri jökulsprungu eftir tvo og hálfan sólarhring frá því leitin hófst.

Þótt árangurinn hafi ekki farið að vonum við þessa viðamiklu leit þar sem 500 manns úr björgunarsveitum af öllu landinu tóku þátt, er ekki hægt annað en að dást að þessu mikla þrekvirki björgunarsveitanna sem og skipulagningu leitarinnar. Að sjálfsögðu er ég stolt yfir því fólki sem tók þátt, þar á meðal einni vinkonu minni sem var nýlega komin af sjúkrahúsi og var því notuð sem bílstjóri enda ófær um fjallgöngur eftir erfiða sjúkrahúslegu. Um leið er ég ekki reiðubúin að krefjast þess að ferðamenn greiði einskonar tryggingu fyrir að fá að halda til fjalla, en spurningin er hvort ekki sé ástæða til að kynna ferðamönnum betur þær hættur sem felast í ferðalögum á hálendi Íslands að vetri til.

Ég er léleg þegar kemur að því að hrósa Íslendingum fyrir eitt né neitt. Það gildir þó ekki um björgunarsveitir Landsbjargar. Þær hafa sýnt af sér svo fórnfúst starf og frábæra baráttu fyrir lífi og heilsu fólks og eigna þess að undrum sætir, ekki aðeins á Íslandi, heldur um víða veröld. Vinkona mín sem var nýlega komin heim eftir sársaukafulla aðgerð á sjúkrahúsi en gaf sér samt tíma til að fara í björgunarleiðangur er gott dæmi um slíkt baráttufólk.

Um leið og ég vil þakka björgunarsveitarfólkinu fyrir verðskuldaða baráttu þeirra fyrir lífi manns sem ekki reyndist hægt að bjarga, vil ég senda aðstandendum hans samúðarkveðjur mínar.   


0 ummæli:







Skrifa ummæli