föstudagur, nóvember 25, 2011

25. nóvember 2011 - Um sölu á landi

Nei, nei. Ég er ekkert á leið úr Samfylkingunni. Ég er henni sammála í flestum málum og með félagsaðild minni og þátttöku í stefnumótun Samfylkingarinnar hefi ég skuldbundið mig til að vinna stefnumálum Samfylkingarinnar framgang þar á meðal samvinnu Evrópuþjóða og baráttunni gegn þjóðrembu og rasisma með mannréttindi að leiðarljósi. Um leið hefi ég sem friðarsinni ávallt greitt atkvæði gegn þátttöku í hernaðarbandalögum þótt það hafi verið gegn vilja flokksforystunnar, en um leið hefi ég stutt kröfurnar um betra flokksskipulag í anda sænsku jafnaðarstefnunnar.

Í dag kom upp atriði þar sem ég get ekki verið sammála forystu Samfylkingarinnar. Þar er ég að tala um söluna á Grímsstöðum á Fjöllum til kínversks fjárfestis/fyrirtækis. Þar gerði Ögmundur það eina rétta í stöðunni og rétt eins og hann benti á, þá er hann bundinn af lögunum og öll frávik frá lögunum eru lögbrot. Þá skiptir engu máli hvort fólk vill selja einhverjum Kínverja Grímsstaði eður ei. Ögmundur hefur sjálfur rökstutt ákvörðun sína á þann hátt að enginn efi er á niðurstöðunni. Ef alþingismenn vilja breyta þessari niðurstöðu er einfaldast að breyta lögunum.

Eins og ég hefi nefnt áður er ég andvíg rasisma og þjóðrembu. Ef umræddur Kínverji vill setjast að á Grímsstöðum á Fjöllum og byggja þar upp hótel og ferðaþjónustu skal ég verða fyrst allra að fagna slíku. Hann mætti jafnvel byggja upp ferðaþjónustu á miklu minna landi án þess að ég færi að kvarta.

Hinsvegar veit ég ekki hvað maðurinn ætlast fyrir í reynd. Hafði hann hugsað sér að byggja upp kínverska ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum eða ætlaði hann að færa landið áfram í hendur kínverskum yfirvöldum eða er hann leppur þeirra? Ekki veit ég það, en fagna hverri þeirri manneskju sem vill flytja til Íslands og búa hér og starfa á heiðarlegan hátt.

Einu sinni voru Íslendingar stærstir og mestir allra og landið var „stórasta land í heimi“. Það var á þeim tíma sem Íslendingar óðu yfir aðrar þjóðir á skítugum skónum á lánuðu fjármagni. Með hruninu urðu þeir einhver vesælasta þjóð í heimi og grátbáðu aðrar þjóðir um fjármagn til að hægt væri að rétta af íslenskt þjóðfélag. Hvar er nú íslenskt frumkvæði og áræði? Skyndilega er ekkert hægt að gera á landi hér nema til komi erlent fjármagn og þá helst kínverskt!

Er ekki kominn tími til að Íslendingar hætti að væla utan í erlendum glæpa- og auðmönnum um að fá einhverja mola sem hrynja af allsnægtaborðum þeirra og fari að horfa í eiginn barm í leit að lausnum á vandræðum íslensku þjóðarinnar?


0 ummæli:







Skrifa ummæli