föstudagur, nóvember 04, 2011

4. nóvember 2011 - Reiðhjól!

Þessa dagana býr hjá mér sænsk vinkona mín sem er á ráðstefnu í Reykjavík. Þar sem hún er ekki með bílpróf hefi ég keyrt hana þangað sem hún þarf að fara. þar á meðal keyrt hana og sótt á ráðstefnuna sem er að hluta til í Háskólanum, en að hluta til á Hótel Sögu (hvað sem hún heitir á þessum síðustu og verstu tímum).

Í morgun þurfti ég að mæta á vaktina mína og því þurfti ég að fara með vinkonu mína snemma á ráðstefnuna áður en ég mætti til vinnu minnar og fórum við því að heiman klukkan 07.15 svo ég næði því að fara á löglegum hraða úr Árbænum í vesturbæinn og aftur til baka fyrir vinnu. Það var óvenju dimmt á leiðinni, myrkur og úðarigning úti, en morgunumferðin vart komin í gang.

Þegar við beygðum af Suðurgötunni og inn á „Guðbrandsgötu“ að Hótel Sögu hafði ég næstum rekist á svarta þúst sem stefndi beint á mig á öfugum vegarhelming. Ég ók varlega að venju og tókst því léttilega að sveigja frá þústinni sem reyndist vera stúlka á ljóslausu reiðhjóli á leið að háskólanum, enda er mér illa við að keyra yfir lítt sýnilegar hindranir auk þess sem eðalvagninn minn gæti skemmst við að lenda á reiðhjólinu.

Það má vel vera að ungir háskólanemendur haldi að ég sjái þá jafnvel og þeir sjá mig á uppljómuðum eðalvagni, en það er samt engin skynsemi í því fólgin að þvælast um á ljóslausum reiðhjólum á öfugum vegarhelmingi í skammdeginu í Reykjavík. Ekki heldur fyrir unga háskólanemendur sem eru uppfullir af visku og þykjast vita öðrum betur á flestum öðrum sviðum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli