þriðjudagur, október 25, 2011

25. október 2011 - Um Þræði valdsins

Ég eignaðist bókina Þræðir valdsins eftir Jóhann Hauksson í fyrradag og hefi nú lesið hana. Sumt í bókinni kom mér á óvart, t.d. stefna Sjálfstæðismanna til að einkavæða orkugeirann, en einnig sú afstaða Jóhannesar Zoëga til ráðningar sinnar sem hitaveitustjóra í Reykjavík árið 1961, en ég hefi ekki lesið sögu hans, hitti hann nokkrum sinnum eftir að ég hóf störf hjá Hitaveitu Reykjavíkur árið 1996 og þar til hann lést nokkrum árum síðar. Ég held að engum hafi dulist sú staðreynd að þar fór hæfasti maður sem völ var á í starf hitaveitustjóra og því óþarfi fyrir hann að hafna auglýstri ráðningu þegar á hann var sótt.

Jóhannes Zoëga var helsti hvatamaður að byggingu Nesjavallavirkjunar og vildi fara mjög gætilega í allar framkvæmdir, óttaðist það mjög að með stórfelldri raforkuframleiðslu yrði gengið mjög á forðabúr Hengilssvæðisins, jafnvel svo að skortur yrði á skiljuvatni til heitavatnsframleiðslu í framtíðinni, atriði sem full ástæða er til að óttast í dag þegar raforkuframleiðslan á Hengilssvæðinu er orðin að aðalatriði og ellefu túrbínur sem framleiða samtals rúmlega 400 MW rafmagns soga í sig gufuaflið og senda mikið magn af skiljuvatni út í umhverfi sitt mörgum til ama.

Að sumu leyti varð ég fyrir vonbrigðum með bókina. Hún er of langdregin á köflum um leið og mér finnst stundum sem það vanti fleiri þætti spillingar í bókina. Við vitum ósköp vel að spillingin á Íslandi nægir til að setja Ísland mun neðar en í ellefta sætið meðal þjóða heimsins þegar spilling er annars vegar.  Um leið er hún prýðilegur inngangur að Rannsóknarskýrslunni frægu og auðveldar lestur hennar verulega.  

Takk Jóhann.


0 ummæli:Skrifa ummæli