mánudagur, október 17, 2011

17. október 2011 - Ekkifrétt dagsins!

Ég sperrti eyrun þegar fréttamaður byrjaði að lesa ágrip af hádegisfréttum klukkan 12 á hádegi því á eftir frétt af skartgriparáni í Reykjavík kom eftirfarandi frétt:

Jón Ásgeir Jóhannesson, Tryggvi Jónsson og Kristín Jóhannesdóttir segjast öll vera saklaus af öllum ákæruliðum skattahluta Baugsmálsins sem nú er til aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Þegar ég hafði heyrt alla fréttina varð ég fyrir vonbrigðum því fréttin var engin, einungis marklaust hjal. Því hvað er svona merkilegt við að einhver sem er ákærður fyrir glæpi neiti sök? Ég efast til dæmis ekkert um að þegar skartgriparæningjarnir nást sem verður vonandi mjög fljótlega, muni þeir harðneita sök þegar þeir verða dregnir fyrir dómarann. Þetta gera langflestir frammi fyrir dómaranum hvort sem þeir eru sekir eða saklausir, einnig þeir sem eru gripnir við verknaðinn, enda vita þeir sem er að það er ávallt möguleiki á sýknu eða mildari dómi. Með því að neita sök eru þeir um leið að krefjast ítarlegrar dómsrannsóknar þar sem dregin eru fram öll atriði málsins, einnig þau sem teljast sakborningnum til mildunar dóms.


Það er því engin frétt að Jón Ásgeir og hyski hans neiti sök þótt ætlað brot þeirra sé talsvert dýrara en skartgripirnir sem ræningjarnir náðu í skartgripaverslun í morgun. Með þessu er ég ekkert að kveða upp úr um skoðun mína, hvort ég telji Jón Ásgeir sekan eða saklausan, en vona bara að dómararnir dæmi að lögum og komist að réttri niðurstöðu í ákærunni gegn honum og öðrum sem þátt eiga að máli.


Hinsvegar má fréttastofa Ríkisútvarpsins, afsakið Rúffsins bæta aðeins fréttaflutning sinn.




0 ummæli:







Skrifa ummæli