þriðjudagur, október 11, 2011

11. október 2011 - Inspired by Iceland eða hvað?

Ég hefi löngum boðið fólki heim í mín fátæklegu híbýli. Þetta hefur verið allskyns fólk sem ég hefi kynnst á ferðum mínum um landið eða erlendis, við einstöku tækifæri eða þá að ég hefi boðið erlendum vinum á Facebook að koma í heimsókn ef þeir hafa átt erindi til Íslands. Þetta hefur verið fólk af ýmsum þjóðernum auk Íslendinga, Svíar, Lettar, Hollendingar, Bretar og Bandaríkjamenn auk þess sem ég á síðar von á heimsóknum fólks frá Ítalíu og Þýskalandi. Ég hefi eldað mat fyrir fólkið og bakað pönnukökur, hvorutveggja án þess að búa við löglega gæðavottun, farið með þau til Þingvalla, Nesjavalla, Vífilsfellið eða Selvogsgötuna og ávallt hafnað öllu endurgjaldi í formi peninga.

Stundum hefi ég boðið fólki að gista. Ef tveir eða þrír gestir eru á ferðinni geng ég gjarnan úr rúmi og sef þá í litla herberginu með köttunum eða þá í sófa í stofunni. Allt er þetta gert á eigin kostnað og hið einasta sem ég hefi út úr þessu er ánægjan af að kynnast góðu fólki og kannski í von um að fólkið svari í sömu mynt ef ég er á ferðinni heima hjá þeim.

Hópur sá sem reynir að kynna Ísland undir orðunum Inspired by Iceland hefur nú farið af stað með hvatningarátak til Íslendinga um að bjóða erlendum ferðamönnum heim og sýna á þann hátt af sér íslenska gestrisni. Ýmsir opinberir aðilar hafa tekið þátt í átakinu og sagst myndu bjóða fólki heim eða í opinber salarkynni. Borgarstjórinn býður fólki að koma í Höfða, iðnaðarráðherrann vill fá fólk með sér í fótabað og forsetinn ætlar að baka pönnukökur.

Þetta er auðvitað hið besta mál, þótt forsetinn muni vafalaust senda reikninginn fyrir kostnaðinum við pönnukökurnar á Bessastöðum til skattgreiðenda, þ.e. til mín. En er þá ekki eðlilegt að ég svari í sömu mynt og sendi reikninginn fyrir minn kostnað við móttöku erlendra ferðamanna til forsetans?


0 ummæli:Skrifa ummæli