föstudagur, október 14, 2011

14. október 2011 - app?

Hvernig myndir þú þýða þetta orð app? spurði vinnufélagi minn í dag.
Ég hváði við, hafði heyrt það nokkrum sinnum í auglýsingum Ríkisútvarpsins sem nú má ekki lengur heita Ríkisútvarp heldur Rúff, svaraði síðan einfaldlega að mér líkaði alls ekki við þetta orð. Nú á maður að appa tónlistarviðburði á hátíð þeirri sem kennd er við loftbylgjur (airwaves) auk þess sem hægt er að appa bensínáfyllingu á símann sinn hjá olíufyrirtækinu Neinum.

Af þessu má ætla að með appinu sé átt við að tengja útfrá orðinu apply og tenging (application), en þetta er að sjálfsögðu ágiskun því ég á farsíma sem ég get hringt úr og tekið á móti símtölum og smáskilaboðum, en get hvorki appað né tengt við tónlistarviðburði eða bensínstöðvar.

Ríkisútvarpið, afsakið Rúffið, gekk lengi vel framfyrir skjöldu í málhreinsun meðal íslensku þjóðarinnar. Öfugmæli og niðurlægingarorð eins og kynvillingur og kynskiptingur voru hátt skrifuð meðal málfarsráðunauta stofnunarinnar og vafalaust hafa orð sem niðurlægja þroskaskerta einstaklinga verið í hávegum höfð hjá umræddri stofnun, allt undir merkjum málfarshreinsunar, en um leið var margt gott gert í málrækt íslenskrar tungu.

Er ekki kominn tími til að auglýsingadeildin flauti af orðið app og noti hið ágæta orð tengja eða annað álíka gott og gilt íslenskt orð í staðinn? Öfugt við fyrri tilraunir Ríkisútvarpsins til að niðurlægja með neikvæðum orðum, held ég að engum sárni þótt nýyrðið app verði snarlega lagt af.

Að endingu styð ég orðið Snjáldurskinna sem Páll Valsson kom fram með fyrir fáeinum árum í stað Fasbókar sem nýlega hefur heyrst á öldum ljósvakans yfir fyrirbærið Facebook.   


0 ummæli:Skrifa ummæli