föstudagur, desember 30, 2005

30. desember 2005 - Eldrick Woods

Eins og flestir lesendur mínir vita, þá skara steingeitur framúr á flestum sviðum, stjórnspeki, rithæfileikum, íþróttum og trúmálum. Margir þekktir einstaklingar eru sagðir vera fæddir í steingeitarmerkinu. Mao tse-tung, Þórhallur Laddi Sigurðsson, Silvía Sommerlath, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Michael Schumacher, Davíð Oddsson, Gunnar Thoroddsen og Jesús Kr. Jósefsson.

Einn dag ber þó sérstaklega af í þessu stjörnumerki, enda óvenjumargt hæfileikafólk fætt þennan dag, en þeirra á meðal eru eftirfarandi: Titus keisari hinn rómverski, rithöfundarnir Rudyard Kipling, Sara Lidman, Vladimir Bukowsky og Bjarni Thorarensen, söngkonurnar Patti Smith og Tracey Ullman, athafnamaðurinn Frosti Bergsson, vísindamennirnir Helge Ingstad og Adda Bára Sigfúsdóttir og allir lesendur mínir þekkja hæfileika mína á ýmsum sviðum, huhmm. Þess má og geta að Sovétríkin sálugu voru formlega stofnuð þennan dag árið 1922 ef marka má Wikipedia. Þá má ekki gleyma tveimur hæfileikamönnum í íþróttum. Annar er knattspyrnukappinn Gordon Banks og svo sá sem hér skal heiðraður

Í dag, 30. desember 2005, heldur bandaríski íþróttamaðurinn Eldrick, sem getur hefur sér gott orð fyrir að sveifla kylfu, upp á þrítugsafmæli sitt, en hann fæddist í Cypress í Kaliforníu í Bandaríkjunum á 24 ára afmælisdegi mínum. Öfugt við mig sem get aldrei ákveðið mig, með hvorri hendinni ég á að slá og með hvorri hendinni á að stýra kylfunni, þá hefur Eldrick þessi náð nokkurri leikni á þessu sviði og virðist ekki vera í vafa eins og ég og fleiri sem teljum það aðalsmerki að rita með vinstri hendi. Vegna hæfileika sinna hefur honum tekist að öngla saman nokkrum aurum með sigrum á þessu sviði, en einhversstaðar las ég, að með barningi sínum á golfvellinum, hafi honum tekist að skrapa saman rúmlega hálfu hundraði milljóna í bandarískum dölum talið. Þá hefur hann eignast aragrúa af allskyns dollum af ýmsum stærðum og gerðum sem eru þó lítt notaðar, heldur einungis hafðar til skrauts á heimili hans í Flórida í Bandaríkjunum.

Eldrick þessi Woods sem stundum er kallaður Tiger Woods, er kvæntur sænsku fyrirsætunni Elínu Nordegren sem sjálf er steingeit, verður 26 ára sunnudaginn 1. janúar 2006.

Mér er það heiður að óska honum til hamingju með daginn sem og öðrum afmælisbörnum dagsins, þó sérstaklega undirritaðri, en einnig Albert frænda hjá Hitaveitu Suðurnesja og Rannveigu eiginkonu Alberts frænda.


0 ummæli:







Skrifa ummæli