föstudagur, desember 23, 2005

23. desember 2005 - Jólaundirbúningur

Þessa dagana er í öllum fjölmiðlum verið að tala um jólastress. Rás 2 sem áður hélt sig við jólalögin síðustu 13 dagana fyrir jól, byrjaði nú að spila jólalögin í nóvember, en var kannski síðust allra að byrja spilverkið. Svo eru sjónvarpsstöðvarnar verstar með endalausu þvargi um jólastress auk þess sem þær flytja óvenjuoft fréttir úr verslanamiðstöðvum og hvernig gengur að höndla jólahamingjuna.

Í gærkvöldi flutti Kastljós sjónvarpsins þátt um fólkið sem er að vinna á jólunum. Þótt ágæt kunningjakona mín væri í þeim hópi sem rætt var við og stóð sig með prýði sem hennar er von og vísa, þá get ég ekki annað en brosað út í annað að tala um að vera bundin á vakt yfir jólin. Fyrir mér er það frekar eins og að vera í fríi, allavega ef borið er saman við jól á sjó. Kastljósþátturinn fjallaði ekki um jól á sjó, bara fólk sem fer á næturvakt klukkan átta á aðfangadagskvöld eða sem hefur vakt eða lýkur vakt um miðnættið og fer svo heim og heldur jól.

Sjálf hefi ég eytt ellefu jólum á sjó eða í höfn erlendis. Ég hirði ekki að tala um þau jól þar sem ég var á vakt á þurru landi eins og hjá Orkuveitu Reykjavíkur eða áður hjá Orkuveitu Stokkhólmsborgar. Þó eru nokkur jól á sjó mér eftirminnilegust.

Fyrstu jólin mín á sjó var ég á flutningaskipi og áætlunin var að koma til Reykjavíkur fjórum dögum fyrir jól. Vegna farmannaverkfalls var okkur beint frá landinu og var aðfangadagskvöldi jóla eytt sex hundruð mílum fyrir sunnan Ísland í kolvitlausu veðri á leið okkar frá Nýfundnalandi til Finnlands. Ári síðar var ég í Vélskólanum og skrapp jólatúr á síðutogarann Sigurð (nú nótaskipið Sigurð frá Vestmannaeyjum). Trollið var híft skömmu fyrir klukkan sex á aðfangadagskvöld og allt í henglum og þurftu hásetarnir að basla við netabætningar á dekki allt aðfangadagskvöld, en ég hafði það huggulegt niðri í vél. Minnisstæðust voru þó kannski jólin 1986, en þá vorum við í höfn í Riga í Lettlandi (þá Sovétríkjunum) á honum Álafossi og var byrjað að lesta skipið um klukkan sex á aðfangadagskvöld. Þegar leið á kvöldið var að sjálfsögðu stöðugur straumur fólks upp í loftskeytaklefa til að hringja heim í gegnum Nesradíó. Þar sem ég var að bíða eftir að komast í símann, kom skyndilega neyðarkall frá skipi sem hafði lagst á hliðina norður af Færeyjum og var að sökkva. Með því að við höfðum opna rásina fyrir neyðarköllin fylgdumst við með vonlausri baráttu áhafnarinnar uns hún yfirgaf skip sitt er það sökk. Við vorum í öruggri höfn, en mikið skelfing var erfitt að sofna þessa jólanótt vitandi af áhöfninni á Suðurlandinu í baráttu fyrir lífi sínu. Öll íslenska þjóðin veit hvernig sú barátta endaði.

Að vera á vakt á spítala eða hjá Orkuveitunni er hjóm eitt samanborið við að vera á sjó.

3 ummæli:

  1. Heyrðu ég er of ung til að muna eftir þessu með Suðurlandið fyrst þetta gerðist 1986, las ég kannski vitlaust? Hvernig endaði sú saga?

    Jólastressið hérna er í algleyming! Við eigum alveg eftir að þrífa (ég var að skipta um á rúminu), fara í bankann og reyna að redda mínusnum í smá plús, kaupa jólagjafir handa hvor annarri osv. Miðað við hvað ég var þreytt í gærkvöldi þegar ég fór að sofa þá veit ég ekki alveg hvernig þessi dagur endar (eða hvenær!). Við verðum í bandi á Skype;-) Þeas ef þú verður ekki í boðum öll Jólin:P

    SvaraEyða
  2. Mér líkar liturinn sem þú hefur valið á síðuna þína. Svona ofboðslega eitís síttaðaftan bleikt. Maður dregur bara fram gömlu speglahlerana.

    SvaraEyða
  3. Miklu flottari síða hjá þér , fer að hugsa mér til hreyfings líka. kv Valur Geisli

    SvaraEyða