laugardagur, desember 24, 2005

24. desember 2005 - Af Þorlák og aðfangadegi jóla

Það var á Þorláksmessukvöld. Ég hafði tekið þátt í friðargöngunni miklu og skotist heim, en nú var ég ákveðin í að fara aftur í bæinn og var að flýta mér. Ég renndi niður Hálsabrautina þaðan sem ég beygði upp afreinina og upp á Vesturlandsveginn til vesturs. Það var flutningabíll sem ók fremur hægt á hægri akrein. “Þetta er ómögulegt” hugsaði ég gaf stefnuljós til vinstri og gaf allt í botn um leið og ég þeystist áfram á mínum vinstrigræna Subaru og fékk yfir mig væna gusu af skít frá flutningabílnum.

Í gegnum skítuga framrúðuna sýndist mér ég sjá bremsuljós. Ég fór að sprauta ísvara á framrúðuna um leið og ég reyndi að hægja á mér og bremsa. Rétt fyrir framan mig voru þrír bílar í hnapp og fremsti bíllinn, flutningabíll var að keyra inn á staðinn við Höfðabakkabrúna þar sem löggan bíður stundum þegar hún er að mæla hraða bifreiða. Mér fannst næsti bíll vera aðeins örfáum bíllengdum fyrir framan mig og nauðhemlaði. Í huganum sá ég þúsundkallana hverfa úr veskinu og fór að velta fyrir mér hvort ég eigi að skella mér til hægri á flutningabílinn við hliðina á mér eða niður í geilina á milli akbrautanna. Áður en ég þurfti að taka ákvörðun fann ég hvernig minn vinstrigræni Subaru lét að stjórn og mér tókst að stoppa í tíma án þess að lenda á kyrrstæðum bílnum fyrir framan mig. Allt fór vel og ég gat haldið ferð minni áfram niður í bæ.

Ég lagði bílnum á góðum stað við ofanverðan Laugaveg og labbaði svo niður í bæ þar sem mikill mannfjöldi var samankominn. Mér fannst ég eiga skilið að verðlauna sjálfa mig fyrir snarræðið á Vesturlandsveginum. Ég kom við í skóbúð og keypti mér flott leðurstígvél. Verðið var hátt, en þó miklu minna en kostnaður minn hefði verið ef ég hefði lent aftan á bílnum.

Með þessum orðum vil ég óska lesendum þessa bloggs gleðilegra jóla, árs og friðar. Megið þið njóta helgarinnar.


0 ummæli:Skrifa ummæli