fimmtudagur, nóvember 04, 2010

4. nóvember 2010 –Um mannréttindaákvæði stjórnarskrár Íslands

Í 65 grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir svo:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Allt er þetta gott og gilt, en er þetta nóg?

Í stjórnskipunarlögunum frá 1995 er ekki einu orði minnst á kynhneigð eða kynvitund. Einungis ári síðar tókst að vinna mikilvægasta réttindamáli samkynhneigðra það mikinn stuðning að lög voru samþykkt um staðfesta samvist samkynhneigðra. Síðar tókst að leiða í lög ákvæði um ættleiðinar samkynhneigðra og síðastliðið vor voru loksins samþykkt ein hjúskaparlög, þrátt fyrir harða andstöðu nokkurra presta þjóðkirkjunnar þótt mikill meirihluti væri þeim samþykkur. Enn er ekki til lagakrókur um réttindi transfólks eða intersexfólks og ekkert í stjórnarkrá sem ýtir á slíka lagasetningu, ekki frekar en réttindi samkynhneigðra.

Réttindi samkynhneigðra eru ákaflega brothætt í lögum. Það er ekkert í stjórnarskrá sem verndar þau og reynslan frá Þýskalandi millistríðsáranna segir okkur að á þeim róstursömu tímum sem nú eru í íslensku samfélagi vilja minnihlutahópar gjarnan verða undir í slíkum átökum. Því er nauðsynlegt að tryggja slík réttindi svo fljótt sem orðið er.

Ég hefi aldrei reynt að draga dul á að stuðningur minn til stjórnlagaþings er að miklu leyti kominn frá hinsegin fólki sem hefur lengi þurft að berjast við veraldlegt sem geistlegt vald til að ná fram réttindum sínum. Ég mun að sjálfsögðu halda merkjum þeirra á lofti með kröfunni um umbætur í mannréttindakafla stjórnarskrár þar sem réttindi hinsegin fólks verði tryggð með að mannréttindaákvæðin nái einnig til kynhneigðar og kynvitundar.


0 ummæli:Skrifa ummæli