sunnudagur, nóvember 21, 2010

21. nóvember 2010 - Um friðarmál

Ég minnist dapra marsdaga árið 2003. Forsætis- og utanríkisráðherra höfðu tilkynnt um stuðning Íslands við innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Írak og Samtök hernaðarandstæðinga tóku þátt í mótmælum framan við stjórnarráðið gegn innrásinni. Ég tók þátt í mótmælunum eftir því sem ég hafði tíma, en því miður varð ég oft að láta mér nægja stuðning í anda vegna vinnu minnar.

Þetta var ekki fyrsta skiptið sem ég tók þátt í mótmælum gegn hernaði. Löngu áður hafði ég gengið Keflavíkurgöngur, eina Straumsvíkurgöngu en einnig tekið þátt í mótmælum við fleiri tilfelli á áttunda áratug síðustu aldar (eitt sinn mætt skuggalegum náunga að nafni Richard Milhous Nixon á Skólavörðustígnum þar sem við vorum að bera skilti frá Iðnaðarmannahúsinu við Hallveigarstíg að Grettisgötu 3).

Friðarbarátta er svo nátengd mannréttindabaráttu að vart verður skilið á milli. Sem mannréttindasinni er ég einnig friðarsinni og á enga ósk heitari en þá að öll vopn verði eldi að bráð og friður og kærleikur ríki um heim allan. Um leið geri ég mér grein fyrir því að slík von er einungis draumur í hjarta. Við verðum þó að styðja þessa von.

Því hefi ég sett í kosningastefnu mína ákvæði um að Íslandi verði bannað að taka þátt, sem og að styðja innrásir í önnur ríki og bann við herskyldu á Íslandi, kannski fjarlæg krafa en raunhæf. Loks að Ísland verði lýst kjarnorkuvopnalaust land.

Er hægt að fara fram á minna?


0 ummæli:







Skrifa ummæli