laugardagur, nóvember 06, 2010

6. nóvember 2010 - Um trúmál

Góð vinkona mín og samstarfskona til fleiri ára spurði mig um afstöðu mína til trúmála. Ég svaraði samkvæmt sannfæringu minni, að ég væri kristin og meðlimur í þjóðkirkjunni, en um leið væri ég hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju. Þessi afstaða mín varð til þess að hún tilkynnti mér að hún ætlaði ekki að styðja við framboð mitt til stjórnlagaþings.

Ég ber fulla virðingu fyrir afstöðu vinkonu minnar. Hún þekkir betur til sjóslysa og baráttunnar gegn þeim en flest annað fólk, án þess þó að hafa sjálf lent í slíku. Hún veit mætavel hve trúin getur verið sterk á örlagastundu þegar vonin virðist úti og ekkert eftir nema svartnætti síðustu andartaka lífsins áður en dauðinn veitir okkur síðustu líknarverkin á hafi úti fjarri ástvinum okkar. Ég hefi sömuleiðis kynnst slíku, séð fullorðna karlmenn gráta og biðja til guðs í örvæntingu sinni þegar öllu virtist lokið.

Meðal annars vegna þessarar reynslu minnar er ég kristin og get vart hugsað mér að fara yfir í annað trúfélag en hina evangelísku þjóðkirkju Íslendinga. Mér dettur hinsvegar ekki til hugar að þvinga trúarskoðunum mínum á annað fólk. Þetta var mín upplifun og mín reynsla sem ég upplifði og ég ætla að eiga hana með sjálfri mér og mínum nánustu. Mér dettur ekki til hugar að krefjast þess að aðrir Íslendingar deili þessari reynslu minni með mér. Þeirra er að eiga sína eigin trúarreynslu eða trúleysi án afskipta minna.

Þess vegna vil ég sjá aðskilnað ríkis og kirkju á Íslandi.


0 ummæli:







Skrifa ummæli