mánudagur, maí 28, 2007

28. maí 2007 - Fyrsta fjallganga ársins

Mér leiðist Formúla. Það hefur ekki alltaf verið svo því ég var ákafur aðdáandi þýska heimsmethafans sem fæddist fjórum dögum eftir að ég fékk ökuleyfið mitt og tók þátt í gleði hans og sorgum, þó oftast gleði allt frá því hann stefndi á sinn fyrsta heimsmeistaratitil árið 1994 uns hann lagði stýrið á hilluna og fór á eftirlaun síðastliðið haust. Síðan þá hefi ég einungis horft á eina keppni og það var ekki keppnin í hægagangi í Mónakó.

Í stað þess að sofa yfir leiðinlegustu Formúlukeppni ársins var farið í bumbubana. Nágranni minn og nafna í næsta húsi kom ásamt syni sínum og síðan var farið í Grafarholtið þar sem Sigga Jósefs frá Hnífsdal bættist í hópinn. Þaðan var haldið sem leið lá að Litlu kafffistofunni í Svínahrauni og stefnan tekin þaðan í Jósefsdalinn sem er sennilega ekki kenndur við pabba hennar Siggu. Frá Jósefsdalnum var stefnan tekin upp á við á tveimur jafnfljótum og upp Vífilsfellið. Fljótlega kom þó í ljós að þrekið var talsvert lakara en ég hélt, auk þess sem ég er rúmum tíu kílóum þyngri en síðast þegar ég hélt þessa sömu leið.

Anna Braga og sonur hennar voru ekkert að tvínóna við hlutina og hlupu á undan, á eftir kom Sigga og síðust kom ég móð og másandi eins og fýsibelgur. Áður en lagt var frá efsta hjallanum í klettabeltið var talið öruggara að skilja níu ára strákinn eftir ásamt móður sinni. Við Sigga héldum síðan áfram síðasta spölinn á toppinn og þóttumst góðar að komast alla leið.

Á toppnum rakst ég á gamlan skólafélaga úr Gaggó. Gunnar Jónsson skrifstofustjóri kom hlaupandi upp ásamt hundinum sínum, kastaði á okkur kveðjum og ræddi aðeins við okkur og hljóp svo niður aftur. Eins gott að hann sá mig ekki þegar ég var að fara upp brattann. Ég gleymdi að taka mynd af honum. Það er þó ljóst að ég á langt í að ná honum í líkamlegu þreki, en hann er líka nærri tveimur mánuðum eldri en ég.

Niður var haldið og öll komumst við heil heim þar sem ég setti inn myndir frá ferðinni inn á netið.

http://public.fotki.com/annakk/gnguferir-2007/vfilsfell-27-ma-2007/

Enn veit ég ekki hver vann Formúlukeppnina í Mónakó.


0 ummæli:







Skrifa ummæli