föstudagur, júní 01, 2007

1. júní 2007 – Horfið strætóskýli

Borgaryfirvöld í Reykjavík eru greinilega skítblönk eftir einungis ett ár við stjórn borgarinnar því þegar ég gekk heim úr vinnu á fimmtudagskvöldið reyndist biðskýlið fyrir strætisvagn S5 við Bæjarháls, rétt við bæði vinnu mína og heimili mitt, horfið og kominn staur í staðinn. Ég efast um að skýlið hafi fokið þrátt fyrir rok fimmtudagsins, enda var kominn staur á steyptri undirstöðu í staðinn sem væntanlegir strætisvagnafarþegar geta haldið sér í á meðan beðið er eftir strætisvagninum. Því leyfi ég mér að ætla að hin blönku borgaryfirvöld eigi ekki neina peninga fyrir fleiri strætisvagnaskýlum.

Í alvöru. Þessi tilraun til að drepa niður strætisvagnakerfið fyrir Árbæinn er að takast. Það var nýkomið nýtt leiðakerfi og sá ég ekki betur en að ungir sem gamlir í Árbænum tækju þessu nýja leiðakerfi feginshendi og örar hraðferðir á milli hverfisins og miðborgarinnar. Eitt fyrstu verkefna nýja borgarstjórnarmeirihlutans fyrir ári síðan var að leggja þessa leið niður.

Þessu var kröftuglega mótmælt og á endanum var leið S5 tekin aftur í gegnið, en þó með verulega færri ferðum en áður hafði verið. Sá kraftur sem fylgdi þessari leið í upphafi náðist því aldrei á þann hátt sem upphaflega var ráðgert og mun færri farþegar sem sáust bíða eftir vagninum. Nú er strætóskýlið horfið öðru sinni, greinilega til nota annars staðar og senn verður leið S5 lögð af til að tryggja enn frekar mátt bílismans í Reykjavík á kostnað almenningssamgangna, unglinga og annarra þeirra sem verða að treysta á strætisvagna til að komast leiðar sinnar.

Ætli það hafi vantað strætisvagnaskýli við Máshóla í Breiðholti?


0 ummæli:







Skrifa ummæli