laugardagur, júní 16, 2007

16. júní 2007 - Lög um eignarupptöku ökutækja

Ég frétti einu sinni af Snålänning einum sem fór akandi með fjölskyldu sinni til Noregs í sumarleyfinu sínu. Hann afrekaði það að komast alla leiðina til Osló og tók þá stefnuna í átt til Kristiansand. Þá varð honum á sú skyssa að vera tekinn af lögreglunni fyrir að aka of nærri næsta bíl. Lögreglan hafði engar vöflur á hlutunum, tók af honum skýrslu og sendi hann ásamt fjölskyldunni heim til Snåland í rútu. Svo var hann kallaður fyrir dómara, sýknaður og fékk bílinn og æruna aftur. Þessi maður ætlar aldrei framar að fara til Noregs.

Nú er sýslumaðurinn á Selfossi farinn að tileinka sér nýja grein í íslensku umferðarlögunum nr 50 frá 1987. Þessi grein er númer 107a og fjallar um upptöku ökutækja ef ökumaður gerist brotlegur við umferðarlög:

107. grein a. Þegar um stórfelldan eða ítrekaðan ölvunarakstur er að ræða, sem ekki fellur undir 2. mgr. þessarar greinar, stórfelldan eða ítrekaðan akstur manns sem sviptur hefur verið ökurétti eða manns sem ekki hefur öðlast ökuréttindi, stórfelldan eða ítrekaðan hraðakstur eða akstur sem telst sérlega vítaverður að öðru leyti má gera upptækt vélknúið ökutæki sem ökuskírteini þarf til að stjórna og notað er við brotið nema það sé eign manns sem ekkert er við brotið riðinn. Við sömu aðstæður og með sömu skilyrðum má gera upptækt vélknúið ökutæki sem ökuskírteini þarf til að stjórna og er eign þess sem hefur framið brotið, enda þótt ökutækið hafi ekki verið notað þegar brotið var framið.

Gera skal ökutæki upptækt þegar eigandi þess hefur verið dæmdur sekur eða gengist undir refsingu vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna eða undir áhrifum áfengis sem hefur í för með sér sviptingu ökuréttar og vínandamagn í blóði er 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lítra lofts sem hann andar frá sér nemur 0,60 milligrömmum eða meira, og viðkomandi hefur tvisvar síðustu þrjú árin fyrir brotið verið dæmdur sekur eða gengist undir refsingu fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis þar sem vínandamagn í blóði hefur mælst 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lítra lofts sem hann andar frá sér hefur numið 0,60 milligrömmum eða meira og sem hefur haft í för með sér sviptingu ökuréttar. Gera skal ökutæki upptækt enda þótt það hafi ekki verið notað þegar brotið var framið.
Víkja má frá ákvæði 2. mgr. í undantekningartilvikum þegar sérstakar ástæður mæla með því.


Ökutæki sem gert er upptækt skal vera eign ríkissjóðs. Hafi einhver beðið tjón við brotið skal hann þó eiga forgang til andvirðisins ef bætur fást ekki á annan hátt.


Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þessa fáránlegu lagagrein. Ég spyr bara, hver samþykkti þessa lagabreytingu? Hvar eru nú eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar? Það er alveg ljóst að þessi lagagrein brýtur alvarlega á stjórnarskránni auk þess sem slíka lagagrein er nú hægt að teygja og toga uns hún nær yfir það að einhver hafi farið átta kílómetra yfir leyfðan hámarkshraða eða gleymi að gefa stefnuljós út úr hringtorgi.

Nær væri fyrir sýslumenn og vélfræðingssyni að fara eftir öðru umferðarlögmáli Önnu vélfræðings, en það er svohljóðandi:

Hið dularfulla við umferðina er ekki umferðin sjálf, heldur skortur á notkun stefnuljósa.


0 ummæli:







Skrifa ummæli