þriðjudagur, júní 05, 2007

5. júní 2007 - Enn af myndinni Sjanghæjað til sjós

Ég hefi fengið nokkra gagnrýni vegna pistils míns í gær vegna myndarinnar Sjanghæjað til sjós. Því verð ég að skrifa annað pistil um sama efni. Ég vil byrja með að taka fram að ég hefi ekkert á móti því að fjallað sé um þennan þátt íslenskrar togarasögu sem fjallar um að sjanghæja menn um borð. Þvert á móti tel ég að draga þurfi þennan þátt mannlegrar lífsbaráttu fram í dagsljósið.

Ég tel bara að kvikmyndin hafi verið mjög flausturslega unnin jafnframt því að sögunni hafi ekki verið gerð nægileg skil. Það mátti gera sögunni betri skil, leggja fram heimildir, lýsa viðbjóðnum sem og skemmtilegum stundum. Það er ekki eins og að togarasagan hafi verið eintóm eymd og volæði. Það hefði mátt nota íslensk kvikmyndaatriði þar sem botnvörpuveiðar voru stundaðar í stað þess að notast við ensk atriði. Einnig hefði mátt sýna úrklippur úr blöðum eða ljósmyndir frá Adlon eða Langabar, sömuleiðis ljósmyndir af togurunum.

Mér er sagt að handritshöfundur myndarinnar, Margrét Jónasdóttir, skorti ekki þekkingu á tímabilinu. Ég er farin að efast um þekkinguna. Það má vera að hún hafi kynnt sér útgerðarsögu nýsköpunaráranna frá 1947-1970, en miðað við aldur hennar, hefur hún sennilega aldrei stigið fæti sínum um borð í nýsköpunartogara, fundið fnykinn í stórum lúkar með 24 kojum, kannski með meira og minna stækju af svita, gömlu hlandi í hálmdýnum og skorti á hreinlæti í bland við miðstöðvarkyndinguna frammí. Þegar haft er í huga að hún er fædd árið 1969 getur hún ekki hafa kynnt sér þá reynslu sem fylgir því að hafa verið í saltfisktúrunum við Vestur-Grænland þar sem ferskvatn og aðrar nauðsynjar voru af skornum skammti, þar sem áhöfnin komst ekki í bað svo vikum og jafnvel mánuðum skipti. Reyndar ekki ég heldur né Hreinn Vilhjálmsson einn viðmælendanna í þættinum sem sömuleiðis er of ungur til að hafa reynslu af þessum tíma, en hefur vafalaust mikla reynslu af manneklu sjöunda áratugarins á togurunum.

Það hefði mátt klippa í burtu sum karlagrobbsatriðin og skilja á milli saltfisktúranna við Vestur-Grænland og ísfisktúranna á Jökultungunni eða á Selvogsbankanum, fjalla um heimilisaðstæður þessara manna sem voru sjanghæjaðir til sjós. Hversu margir þessara manna sem voru sjanghæjaðir voru t.d. heimilislausir drykkjumenn? Þegar ég er að lesa um þá menn sem fórust utan við hafnir eða sökum ölvunar virtust flestir vera ókvæntir og skráðir til heimils hjá foreldrum sínum eða systkinum. Því virtust togararnir nánast eins og félagsmálastofnanir fyrir þessa harðduglegu menn. Það er af nógu að taka ef kvikmyndagerðarmenn vilja leita í stað þess að hjúpa sannleikann einhverskonar dulúð.

Þegar haft er í huga að jafn virðulegt fyrirtæki og Sagafilm stendur á bakvið þessa mynd, hefði mátt leggja örfáum krónum meira í myndina og gera hana trúverðugri. Það brást vegna flausturlegra vinnubragða höfunda myndarinnar. Það er grátlegt sökum þess að efniviður myndarinnar vakti geysimikla athygli og hefði svo sannarlega mátt gera efniviðnum hærra undir höfði.


0 ummæli:







Skrifa ummæli