sunnudagur, júní 03, 2007

4. júní 2007 - Sjanghæjað til sjós

Það var 22. júní 1966 sem ég hóf mína sjómennsku á nýsköpunartogara einungis 14 ára. Skipstjórinn var móðurbróðir minn Pétur Þorbjörnsson og vafalaust réði það miklu um að ég álpaðist á sjó svo snemma eða sumarið eftir 2. bekk í gagnfræðaskóla. Fáeinum árum síðar var síðasti nýsköpunartogarinn seldur í brotajárn og þar með lauk nýsköpunartímabilinu í íslenskri sjávarútvegssögu. Frændi minn sem samþykkti mig um borð til sín á bv. Jón Þorláksson sumarið 1966 lést fyrir ári síðan þann 8. júní 2006. Blessuð sé minning hans.

Ástæða þess að rifja þetta upp hér er að tilefni sjómannadags var sýnd heimildarmyndin Sjanghæjað til sjós í sjónvarpinu þar sem m.a. birtist viðtal við frænda minn heitinn og fleiri góða menn sem höfðu verið til sjós á togurum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Sjálf var ég tiltölulega stutt á gömlu síðutogurunum, líkaði illa og sneri mér fljótt að öðrum tegundum fiskveiða sem og farmennsku þar til skuttogararnir fóru að streyma til landsins.

Ég sá ýmislegt athugavert við gerð þessarar myndar þótt vissulega sé mikil þörf á því að raunveruleiki nýsköpunartogaranna komi fram í dagsljósið, ekki síst þeir erfiðleikatímar í togaraútgerð þegar menn voru sjanghæjaðir til sjós. Um leið voru frásagnir þeirra alls ekki tæmandi, ekki síst vegna vanþekkingar handritshöfundar á viðfangsefninu. Því skal tekið fram að saltfisktúrarnir við Vestur-Grænland voru að mestu eða öllu leyti bundnir við sjötta áratuginn. Þar sem um var að ræða fullvinnslu á afla, þ.e. saltfiskvinnslu um borð, þá varð hver koja að vera mönnuð. Því til viðbótar varð að skammta allt ferskvatn til þrifa og eldunar. Sömuleiðis varð að fara sparlega með öll önnur aðföng því langt var til næstu hafnar. Í þessu ljósi verður að skoða erfiðleikana við mönnun skipanna, enda gat ein veiðiferð á togara verið á við heila síldarvertíð á bát á sjötta áratugnum.

Ég held að það hafi gengið öllu betur að manna togarana á sjöunda áratugnum. Þá höfðu saltfisktúrarnir lagst af og allir togararnir nema einn komnir á ísfiskveiðar, en Narfi RE var með heilfrystitæki um borð. Jafnframt fór togurunum að fækka og áhafnirnar dreifðust á þau skip sem eftir voru. Þó þótti enn hin mest skemmtun fyrir broddborgara Reykjavíkur að aka niður á höfn og sjá þegar togararnir voru að fara út og sjá þegar verið var að smala áhöfnunum um borð, oft dauðadrukknum og sumum beint úr fangaklefa eftir drykkju landlegunnar.

Þarna brást handritshöfundum myndarinnar að skilja ekki á milli þessara tveggja erfiðleikatímabila. Annað atriði sem mér fannst athugavert var þessi skortur á íslensku myndefni til að sýna. Mestallt myndefnið annað en viðtölin, var enskt, tekið í Grimsby eða þá um borð í enskum togurum. Þetta er kannski í góðu lagi fyrir sauðsvartan almúgann sem veit ekki hvað snýr aftur eða fram á skipi, en mín kæra lesönd, það er verið að sýna þessa mynd í tilefni sjómannadags og þegar allur fiskiskipaflotinn er í höfn. Þá held ég að til sé talsvert mikið efni um lífið um borð í íslenskum nýsköpunartogurum frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, oft tekið upp af Óskari Gíslasyni og Ósvaldi Knudsen. Af hverju var ekki leitað í söfn þeirra?

Um leið og ég leyfi mér að gagnrýna meðhöndlun þessa myndefnis, var full þörf á að vekja athygli á fleiri þáttum íslenskra nýsköpunartogara en áður hafa verið gerðir opinberir um leið og vaktar hafa verið upp margar spurningar um heimild til þeirra aðferða sem voru viðhafðar við mönnun togaranna.


0 ummæli:







Skrifa ummæli