miðvikudagur, júní 27, 2007

27. júní 2007 - Aumingjaskapur vélstýrunnar



Er ég vaknaði á þriðjudagsmorguninn var glampandi sól og ég enn á frívakt. Mér fannst ekki hægt annað en að nota góða veðrið til fjallgöngu, dreif mig á fætur, tróð helstu nauðsynjum ofan í bakpoka, setti kettina út og hélt til stefnumóts við Esjuna. Svo kárnaði gamanið.

Ég hafði ekki gengið lengi upp hlíðarnar er ég fann hvernig dró af mættinum. Ég hélt samt áfram og varð þreyttari og þreyttari. Er ég komst loks upp í klettabeltið þurfti ég að hvíla mig í öðru hverju skrefi, en upp komst ég þrátt fyrir allt og náði því að banka skífuna á tíma sem er alls ófullnægjandi eða kortéri lengri en ég hafði farið fyrir hálfum mánuði.

Þetta gengur ekki svona. Stjórn fjallgönguklúbbs Önnu kallaði þegar til fundar og þar var ákveðið að senda mig á Hábungu og til baka aftur. Ekkert mál, hugsaði ég, þótt Hábunga sé um 140 metrum hærri en Þverfellshornið er hún einungis rúma þrjá kílómetra til austurs. Veðurbarið grjótið á toppi Esjunnar er bara ekki eins og malbikaður göngustígur. Því þurfti ég að æfa hinn fræga þúfnagang sem ónefndur íslenskur ríkisborgari og skákmeistari hlaut aðdáun fyrir árið 1972, er ég hélt austur. Engan jólasvein sá ég í þetta sinn eins og fyrir ári, en mætti einni sem gæti verið jólasnót, nema auðvitað að hún hafi haldið ég væri jólasnótin.

Þremur tímum síðar var ég komin til baka að mannlausu Þverfellshorni og eftir góða hvíld hélt ég niður af fjallinu. Ekki leið á löngu uns ekki var hægt að þverfóta fyrir fólki á uppleið og sumt á niðurleið. Hvaðan kom það fólk? Ég sá engan á Þverfellshorni er ég kom til baka frá Hábungu.

Nú kom annað babb í bátinn. Eftir að hafa eytt öllum eftirmiðdeginum í fjallgöngu og gönguna á Hábungu og einungis drukkið orkudrykk og etið eitt stykki úrvals hreint rjómasúkkulaði frá Síríus, ákváðu innyflin að mótmæla fæðinu og ég enn ofarlega í Esjuhlíðum. Ég reyndi að flýta mér, en samt var ástandið orðið þannig er ég nálgaðist bílastæðin á Mógilsá, að ég þurfti að læðast síðustu metrana til að koma í veg fyrir stórslys.

En heim komst ég með sólbrunnið nef!


0 ummæli:







Skrifa ummæli