fimmtudagur, júní 14, 2007

14. júní 2007 - Ofsaakstur á mótorhjólum

Einhverju sinni fyrir einhverjum áratugum síðan spurði ég varðstjóra við Árbæjarlögregluna (sem þá var einasta útibú lögreglunnar í Reykjavík) hvert væri hraðametið á leiðinni frá Selfossi til Reykjavíkur, vitandi að vegalengdin á milli Ölfusárbrúar og Elliðaárbrúa var talin vera sléttir 50 kílómetrar. “23 mínútur”, svaraði hann að bragði.

Eitt sinn fyrir kannski 26 árum síðan var ég farþegi í nýjum bíl á leið frá Selfossi til Reykjavíkur um miðja nótt. Eiganda bílsins fannst þetta tilvalið tækifæri til að prófa getu nýja bílsins og á tímabili sást hraðamælir bílsins liggja á vel yfir 200 kílómetra hraða, en meðalhraðinn í þessari ferð reyndist vera 150 km/klst., þ.e. frá Ölfusárbrú að Elliðaárbrúm, en við vorum 20 mínútur að fara þessa vegalengd sem var því talsvert undir hraðametinu sem lögregluvarðstjórinn hafði nefnt við mig. Það skiptir ekki máli í dag hver ók bílnum, enda málið fyrnt fyrir löngu. Sá hinn sami er fyrir löngu farinn að slaka á bensínfætinum eftir rúmlega hálfrar aldar slysalausan akstur.

Nokkru eftir þessa ferð okkar hitti ég einn samferðamanninn sem hafði verið með okkur í umræddri ferð. “Það var víst ekkert met sem hann vinur okkar setti þarna um daginn” sagði maðurinn í óspurðum fréttum. “Nú hvað áttu við?” spurði ég.
“Ég frétti af mótorhjólagengi sem fór í gegnum Selfoss um daginn og löggan sá að hún hefði ekki roð við þeim svo hún kallaði bara í Árbæjarlögregluna og bað þá að sitja fyrir þeim. Þeir löbbuðu út til að vera viðbúnir að taka á móti piltunum, en náðu bara þeim síðasta. Sá var á einhverjum 750 kúbika ræfli. Ég frétti að þeir hefðu farið vegalengdina á 17 mínútum!”

Ungt fólk á Íslandi í dag er greinilega enn að leika sér að lífinu, samanber hið hræðilega slys á Breiðholtsbrautinni um daginn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli