laugardagur, júní 23, 2007

23. júní 2007 - Fjöll skoðuð neðanfrá


Ég skrapp í Borgarfjörðinn á föstudagskvöldið enda mörg árennileg fjöll þar sem vert er að slíta skónum á. Þegar ég var komin vel af stað, áttaði ég mig á því að föstudagskvöld eru næstverstu tímarnir til að skoða fjöll úr bílnum. Einungis sunnudagskvöld eru verri.

Ekki var umferðin alveg samfelld þótt þung væri. Mér fannst þó eftirtektarvert að framan við þá bíla með skuldahala á eftir sér sem sýndust fremstir, leyndist venjulega jepplingur. Sjálf gleymdi ég mér við hlustun á Guðna Má er ég fór í gegnum Hvalfjarðargöngin á suðurleið og ók á 60 mestalla leiðina. Ég lenti samt aftan við bílalest á leiðinni upp úr göngunum.

-----oOo-----

Ég er að velta fyrir mér tilgangnum með öllum þessum mælitækjum og myndavélum við gjaldskýlið norðan Hvalfjarðarganganna. Ég hefi farið fjórum sinnum í gegn undanfarna þrjá daga og alltaf hefur myndavél tekið mynd um leið og ég ók framhjá. Tvö fyrstu skiptin var ég ekki glápandi á hraðamælinn er mynd var tekin, en í bæði skiptin í kvöld var ég sannanlega á undir 30 km hraða frá því komið var að 30 km skiltinu og samt var tekin mynd. Hvað er eiginlega í gangi þarna?

Það eru svo komnir myndavélastaurar í umdæmi Borgarfjarðar við Hvalfjarðarvegamót fyrir umferð sem kemur sunnanfrá og við Fiskilæk fyrir umferðina sem kemur norðanfrá. Gott að vita af þeim þarna ef maður skyldi ekki vilja flýja land vegna ofríkis yfirvalda í umferðarmálum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli