laugardagur, júní 30, 2007

Minningarathöfn um hund!



Fyrir allmörgum árum lokuðust þrír hvalir inni í vök í einhverjum flóa einhversstaðar í Alaska. Þetta þótti hið versta mál og maður gekk undir manns hönd til að safna pningum svo hægt væri að bjarga vesalings hvölunum. Ekki man ég töluna á fjölda heimilislausra í New York sem gefendur í söfnunina þurftu að sýna lítilsvirðingu með ferð sinni í bankann til að sækja aura fyrir söfnunina, en það breytti engu um örlög þessara þriggja hvala sem drápust þrátt fyrir stórtækar aðgerðir til að bjarga þeim úr prísundinni.

Sömuleiðis fór fram í Bandaríkjunum gífurleg söfnun til bjargar háhyrning einum sem hafði verið lokaður í lítilli laug í sædýrasafni. Það tókst að safna gífurlegum fjármunum, kaupa hvalinn lausan og sleppa honum þótt hann kærði sig ekkert um frelsi, enda drapst hann í námunda við fólkið sem þurfti að annast hann.

Sumsstaðar í heiminum var hlegið að þessum vitlausu Ameríkönum og gert grín að þeim.

Á Íslandi var haldin minningarathöfn um hund!

Þið megið ekki misvirða þessi orð því auðvitað þykir mér vænt um dýr og get ekki hugsað mér að gera neinu dýri mein, ekki frekar en mannfólkinu. Sjálf á ég tvær indælar kisur og reyni að sinna þeim eins vel og mér er unnt. Ég myndi hinsvegar aldrei halda opinbera minningarathöfn um kisurnar mínar jafnvel þótt þær yrðu pyntaðar til dauða, en alveg örugglega kæra málsaðila með hraði fyrir brot á dýraverndarlögum auk þess að halda minningu þeirra á lofti innan veggja heimilisins. Það er staðreynd að á meðan fjöldi fólks líður skort á Íslandi er slík minningarathöfn sem átti sér stað á fimmtudagskvöldið sem háðung fyrir alla sem tóku þátt og þekktu hundinn ekki neitt.

Mér finnst að Íslendingar eigi að hætta að tala um skrýtna Ameríkana og horfa í spegil í staðinn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli