föstudagur, júní 08, 2007

8. júní 2007 – Hvað er svona merkilegt við rauðhærða menn?




Egill heitir maður og er Helgason. Hann stjórnaði eitt sinn spjallþætti á Skjá einum, en var svo boðið að gera svipaðan þátt á Stöð 2. Síðan þá hefi ég ekki séð til hans í sjónvarpi. Það gerði reyndar ekkert til því ég var alls ekki sátt við efnistök hans, fannst hann dæmigerður fyrir þá menn sem vita fátt skemmtilegra en að hlusta á sjálfa sig.

Nú hefi ég frétt að hann sé hættur á Stöð 2 og ætli með þáttinn sinn til Ríkissjónvarpsins. Um leið er sagt frá því að það sé búið að loka á hann á Vísir.is. Mér þykir það miður. Ég hefði reyndar ekki vitað að hann bloggaði á Vísir.is, nema fyrir þá sök að hann miðaði upphaf bloggsins við sjálfan sig og taldi ekki með eldri bloggsamfélög, að hann miðaði allt við sjálfan sig eins og honum einum er lagið. Ég hefði helst kosið að hafa hann þarna áfram. Sjálf á ég einungis eina bloggvinkonu á Vísir.is (Blog.central frátalið).

Vísisbloggið er dálítið sérstakt bloggsamfélag. Þar er fólki skipt í háa og lága. Þar er sérstakt samfélag fyrir þá sem eru 365 þóknanlegir og svo annað fyrir okkur hin. Ég byrjaði að blogga á sínum tíma á blog.central áður en það lenti í gráðugum höndum 365 eða hvað það hét á þeim tíma. Þar var tekið fram er ég byrjaði, að hönnuðir þess og stjórnendur áskildu sér þann rétt að fjarmagna reksturinn með takmörkuðu auglýsingamagni. Það fannst mér í lagi á meðan auglýsingarnar keyrðu ekki framúr hófi. Auglýsingunum fjölgaði þó umtalsvert eftir að það lenti í höndunum á 365 eða hvað það hét á þeim tíma og brátt blikkaði það allt eins og hórhverfi í stórborg. Þegar farið var að auki að krefjast greiðslu fyrir einstöku aukaþætti eins og skoðanakannanir, klukku og fleira, gafst ég upp og snéri mér að blogspot. Reyndar held ég að þessar greiðslur fyrir aukaþætti hafi verið felldar niður mjög fljótlega.

Vegna þessara græðgissjónarmiða hjá 365 hefi ég haft allan vara á mér og haldið blogspot blogginu áfram opnu eftir að ég fór yfir á Moggabloggið ef Mogginn tæki upp á því að breyta blogginu mínu í eitt allsherjar auglýsingaskilti eins og gerðist með Vísisbloggið.

Ég skil ekki af hverju verið er að draga Egil Helgason yfir á Ríkissjónvarpið og á Moggabloggið frá 365 miðlum. Það hlýtur að vera hægt að fá einhvern skemmtilegri þáttastjórnanda sem ekki er eins sjálfhverfur og ódýrari að auki. Verst af öllu finns mér þó að það skuli eiga að skipta út Formúlunni á RÚV fyrir Egil Helgason, enda rauðir bílar ólíkt fallegri en rauðhausar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli