sunnudagur, desember 05, 2010

5. desember 2010 - Líkur sækir líkan heim

Það voru stjórnlagaþingskosningar á íslandi um daginn. Ég held ég þurfi varla að lepja úrslitin upp aftur eftir að þau voru gerð heyrinkunn, en langar samt til að segja það að ég lenti í 43. sæti af um 522 frambjóðendum sem er harla góður árangur, ekki síst í ljósi þess að ég var sein til framboðs og eyddi engu í kosningabaráttuna, engar auglýsingar eða kynningar á annan hátt en þann sem fylgir vefmiðlum DV og Svipunnar sem og almennar kynningar frambjóðenda.

Kosningarnar báru með sér að flokksmaskínurnar voru ekki með í ráðum, þó að undanskildum einum stjórnmálaflokki sem sendi út tilmæli til sinna flokksmanna kvöldið fyrir kjördag um að kjósa vissa aðila. Sjálf hafði ég kosið utankjörstaðar og gat því ómögulega farið að breyta kjörseðli mínum til að má út einn sem þar hafði verið tilnefndur af skrýmsladeildinni. Sjálf dró ég aldrei dul á að ég væri flokksbundin í Samfylkingunni og neitaði því að skrifa undir yfirlýsingu um að ég væri óflokksbundin og væri ekki hagsmunatengd þótt aldrei fengi ég minnsta stuðning úr þeim ranni. Fjöldi fólks gerði þetta þó hvar í flokki sem það stóð.

Þegar ég skoðaði síðar tölurnar sem birtust með kosningaúrslitunum nokkrum dögum síðar kom ýmislegt forvitnilegt í ljós, þá fyrst og fremst hvernig fólk hafði raðað á lista. Þegar einhver yfirlýstur Samfylkingarmaður datt út komu fá atkvæði í minn hlut, þó fleiri en atkvæði Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna sem voru í framboði og féllu út á undan mér. Sömu sögu var að segja um fólk sem telur sig sannkristið. Það var frekar að ég fengi atkvæði þegar fólk sem ég þekki persónulega datt út. Ef einhver gamall jaxl af sjónum datt út fékk ég atkvæði, en ekkert þegar Jón Valur datt út. Ég fékk síðan mörg atkvæði í minn hlut þegar Sigursteinn Másson og Stefán Pálsson féllu út.

Sjálf féll ég út skömmu á eftir þeim félögum. Þá brá svo við að Birna vinkona mín Þórðardóttir fékk 76 atkvæði í sinn hlut og Silja Bára Ómarsdóttir 54 atkvæði, en eins og flestir vita eru þau Stefán, Birna og Silja í öðrum flokki en ég, en með svipaðar áherslur í friðar- og mannréttindamálum. Eiríkur Bergmann Einarsson kom svo fast á eftir þeim stöllum með 45 atkvæði. Til samanburðar má þess geta að einungis eitt atkvæði féll í hlut Þorsteins Arnalds og þrjú féllu í hlut Maríu Ágústsdóttur sem svo hatrammlega barðist gegn einum hjúskaparlögum síðastliðið vor.

Þetta segir mér það að lífsskoðun fólks hafi haft meira að segja um viðmót fólks í þessum kosningum en flokkspólitíkin. Um leið er ljóst að þekkt andlit komust lengra en lítt þekkt andlit og því ljóst að fólk með lítið á milli handanna hafði ekki minnsta möguleika á að komast inn á stjórnlagaþing þótt það ætti þangað brýnt erindi.

Það þótti mér miður.


0 ummæli:







Skrifa ummæli