mánudagur, desember 06, 2010

6. desember 2010 - Tækjadella

Það hefur löngum þótt eðalmerki sérhvers karlmanns að hafa gaman af græjum, helst einhverju með mörgum tökkum og blikkandi ljósum og flóknum aðgerðum án þess að notast sé við leiðarvísi, eða eins og einn vinnufélaginn orðaði hlutina einhverju sinni er einhver annar spurði hann um leiðarvísi:

“Þú þarft engan leiðarvísi. Karlmenn þurfa ekki leiðarvísi.”

Kannski er skreytingaþörfin fyrir jólin sem lítill angi af þessari tækjadellu. Karlarnir geta dundað sér tímunum saman við að greiða úr flækjunum á seríunum og leitað uppi bilaðar perur og bætt við seríum uns þeir verða sjálfir eins og enn einn upplýstur jólasveinninn.

Myndavélar eru enn einn anginn af þessari skemmtilegu tækjaþörf. Þegar konur eignast góða myndavél vilja þær fara á námskeið og læra að fá eins mikið út úr tækinu og hægt er. Þetta er aukaatriði fyrir karla. Þá verður stærð ljósops og hraði myndarinnar að meginmáli, en gæði niðurstöðunnar, þ.e. gæði myndanna, að aukaatriði. Ég rifja upp myndavéladellu sem gekk um borð í togara fyrir nokkrum áratugum og menn kepptust við að eignast sem flottustu myndavélarnar. Einn keypti sér ágæta myndavél af gerðinni Yashica með ýmsum sjálfvirkum stillingum sem í dag þykja sjálfsagðar í öllum myndavélum en voru nánast óþekktar á filmuvélum þess tíma. Þetta þótti ekki nógu fínt meðal karlpeningsins um borð hjá okkur og var miskunnarlaust hæðst að kappanum með Yashica myndavélina. Ekki bætti úr er fréttist að einn af framkvæmdastjórum Yashica framdi harakiri og um borð í íslenskum togara var myndavél skipsfélagans miskunnarlaust kennt um hrakfarir framkvæmdastjórans.

Tveir vinnufélagar mínir, skiptir ekki máli hvar né hvenær, voru báðir miklir áhugamenn um hljómtæki og voru duglegir að metast um hvor ætti betri græjur. Annar eignaðist hljómtæki af lítt þekktu merki fyrir hóflegt verð og þóttist heldur betur hafa gert góð kaup, hinn mátti ekki vera minni maður og keypti sér einnig hljómtæki, en af heimsþekktu gæðamerki sem kostaði offjár og fór að metast við hinn um gæðin. Fyrir venjulegt fólk heyrðist enginn munur og því var aðeins eitt að gera og það var gripið til skrúfjárnanna og tækin skoðuð að innan. Dýra tækið leit út að innan eins og fjöldi annarra tækja svipaðrar gerðar, en það ódýra reyndist hinsvegar svo pakkfullt af allskyns innyflum að ekki hefði verið hægt að bæta við skrúfu til viðbótar. Vonbrigðin urðu svo mikil fyrir kaupanda dýra tækisins að hann steinhætti að metast framar um gæði tækjanna sinna.

Ætli ástandið sé ekki svipað hjá tölvunördum nútímans?


0 ummæli:Skrifa ummæli