laugardagur, ágúst 11, 2012

11. ágúst 2012 - Baráttan og gleðinUm huga minn fara gamlar göngur, ekki göngur hinsegin fólks, fremur kröfugöngur íslenskrar alþýðu á 1. maí. Fyrir göngu fulltrúaráðs verkalýðsfélaga var lúðrasveit, síðan fánar hinna ýmsu verkalýðsfélaga og allt var þetta kallað hátíðarganga. Aftan við þessar göngu gengu aðrar göngur, göngur vinstrihópanna sem vildu lítið með samvinnuna við stóreignamenn hafa og öskruðu hástöfum Stétt gegn stétt eða 1. maí baráttudagur, allir dagar baráttudagar! Svo skreið maður upp á einhvern vörubílspall og hélt ræðu, úthúðaði auðvaldinu og spilltri verkalýðshreyfingu og svo var baráttunni lokið það árið og allir fóru heim að undirbúa næstu mótmæli.

40 árum (eða voru það kannski 38 ár) eftir mína fyrstu kröfugöngu á 1. maí tók ég þátt í gleðigöngu í Malmö. Til samans með nokkrum sænskum og hollenskum baráttujöxlum um réttarstöðu transfólks stilltum við okkur fremst í gönguna og létum illa. Þetta var skemmtileg kröfuganga. Fólkið fyrir aftan okkur var í gleðigöngu, ekki við sem gerðum okkur grein fyrir þörf á lagalegum úrbótum fyrir transfólk í Svíþjóð samhliða réttarbótum um allan heim.

Fyrstu árin sem gleðigangan fór fram í Reykjavík tók ég ekki þátt. Ég var ekki viss um hvort ég væri velkomin í gönguna. Ég átti jafnvel til að ganga í hina áttina til að missa ekki af neinu af gangstéttinni á Laugaveginum, kannski á leið til vinnu, en það var samt alltaf gaman að fylgjast með þótt gleðigangan væri ekkert úrslitaatriði fyrir sálarheill mína. Einu sinni gekk ég niður allan Laugaveginn við hliðina á Herði frænda mínum Torfasyni sem var heiðursgestur það árið og það var úrhellisrigning alla leiðina, fyrsta og eina skiptið sem ég minnist þess að það hafi rignt í gleðigöngu. Árið 2007 tók ég þátt í hópi Amnestyfélaga og við slógum í gegn með kröftugum athugasemdum um slæma réttarstöðu hinsegin fólks um heim allan.  Árið 2011 var ég með skilti sem minnti okkur á framtíðina, fengjum við lagaleg réttindi árið 2012? Kannski sló ég aftur í gegn það árið?

Ég er löngu orðin sátt við gleðigönguna. Við fáum að vera hinsegin í heila viku áður en við hverfum aftur inn í gömlu gagnkynhneigðu veröldina og verðum þar næstu 358 dagana. Því miður er það svo að gömlu gagnkynhneigðu gildin eru enn við lýði, hvítu miðaldra karlarnir fara bara norður á Dalvík á fiskidaga til að sleppa við gleðidagana í Reykjavík og skila sér svo aftur suður þegar Reykjavík hættir að vera hinsegin.

Nú kann einhver að mótmæla mér og halda því fram að ég sé að fara með fleipur. Íslendingar eru orðnir svo fordómalausir. Kannski,
  en ég þekki fleiri eldri hvíta karlmenn sem fara á fiskidaga með hjólhús í eftirdragi til að sleppa við gleðidaga í Reykjavík, þá hina sömu sem tala gjarnan um samkynhneigða karla sem saurbæinga og þykjast svo vera fordómalausir.

Baráttunni er ekki lokið!
   
0 ummæli:Skrifa ummæli